141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

staða sparisjóðanna.

[14:24]
Horfa

Jón Bjarnason (U):

Herra forseti. Það er gott að við ræðum um sparisjóðina. Það er reyndar ekki í fyrsta skipti á Alþingi og það undirstrikar mikilvægi umræðunnar. Sparisjóðirnir hafa orðið út undan og eftir í þeirri endurskipulagningu á fjármálastofnunum landsins á síðustu árum. Menn hafa verið bundnir af þeim allra stærstu sem höfðu farið þá leið sem hv. þm. Björn Valur Gíslason lýsti hér áðan, sem höfðu tapað sér í græðgisvæðingunni. Hinir, þessir minni sem gegnt hafa samfélagslegu hlutverki sínu frá stofnun og áfram í gegnum erfiða tíma, hafa ekki enn fengið þann stuðning sem þeir þurfa.

Sumir hafa reyndar komist af án ríkisstuðnings, ég nefni Sparisjóð Strandamanna, af því að hér var orðað að ríkið væri orðinn stofnfjáreigandi í flestum eða öllum sparisjóðum. Svo er ekki. Sparisjóður Strandamanna sem hefur ávallt verið rekinn samkvæmt þessum góðu gildum stendur og starfar enn. Það er alveg klárt mál að staðbundin þjónusta sparisjóðanna skiptir gríðarlega miklu máli. Sparisjóðurinn Afl, sem samsettur er úr Sparisjóði Skagafjarðar og Sparisjóði Siglufjarðar, skiptir gríðarlega miklu máli fyrir samfélagið á því svæði auk þess sem hann skiptir máli fyrir heildarsparisjóðaumhverfið í landinu því að hann er með á milli 25 og 30% af heildarumsvifum sparisjóðanna. Þess vegna eru nú átakalínurnar um Sparisjóðinn Afl. Ég fagna þess vegna áhuga hæstv. fjármálaráðherra á málinu. Ég veit að hann mun beita sér í því máli en málið þolir bara ekki bið.

Arion banki krefst þess nú að fá að breyta eignarhaldi á þeim stofnbréfum sem hann hefur innleyst eða kallað eftir hjá stofnfjárhöfum til þess að geta látið sparisjóðinn renna inn í Arion banka. (Forseti hringir.) Það er ekki mikill tími til stefnu. Við verðum að verja sparisjóðinn Afl (Forseti hringir.) og ég skora á hæstv. ráðherra að beita sér eins og hann lýsti í þeim efnum.