141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

staða sparisjóðanna.

[14:29]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Hæstv. forseti. Okkur er hollt að minnast þess að stofnun fyrstu sparisjóðanna var ekki síst viðleitni til að bæta lífskjör og voru þeir ekki síst viðbrögð við því að stærri fjármálafyrirtæki sáu sér ekki hag í því að lána efnaminna fólki og smærri fyrirtækjum. Það þótti ekki áhættunnar virði og vaxtakostnaður var lántakanum ofaukinn. Stundum voru lánin ekki hugsuð til annarra hluta en giftinga og jarðarfara.

Það efast fáir um samfélagslega þýðingu íslensku sparisjóðanna í gegnum tíðina og litlir sparisjóðir hafa oft gegnt lykilhlutverki í dreifðari byggðum þar sem stóru bankarnir treystu sér ekki til að koma til aðstoðar. Þeir hafa nefnilega verið afgerandi fyrir vöxt og viðgang margra bæja. En allt breytist með tímanum og hver tími hefur sinn veruleika. Ég held að við ættum að varast að horfa um öxl með of mikilli rómantík og horfa eingöngu á dæmi um það sem heppnast hefur vel. Við erum varla strax búin að gleyma því hvernig göfug markmið sumra sjóðanna breyttust í gróðabrask og áhættusækni sem steyptu þeim á endanum fram af brúninni.

Breyttur heimur með nýrri tækni og aukinni skilvirkni og minni höftum virðist þó ekki hafa gert alveg út af við sparisjóðina í Evrópu eins og margir spáðu og meira að segja bendir margt til þess að þeir eigi sér býsna góðan tilverurétt. Það er því auðvitað sjálfsagt mál að við greiðum fyrir endurreisn og framtíð sparisjóðanna en þó með ákveðnum skilyrðum. Við þurfum að setja þeim mjög skýr samfélagsleg markmið. Starfsemi sparisjóðanna verður að vera takmörkuð við inn- og útlánastarfsemi og staða sparifjáreigenda í stjórn þeirra tryggð. Þá þarf einnig að vera öruggt að til lengri framtíðar byggi þeir á sjálfbærum grunni en ekki á fjármunum ríkisins og baktryggingu almennings.