141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

staða sparisjóðanna.

[14:31]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það eru til alþjóðlega viðurkenndir mælikvarðar sem bregða máli á það sem við köllum samþjöppun á fjármálamarkaði. Á þennan kvarða mælt var samþjöppun á íslenskum fjármálamarkaði frá 2000 fram til ársins 2008. 1.800 telst mikil samþjöppun. Núna er samþjöppunin mæld á þennan mælikvarða stigin í meira en 3.000, 50% meiri en hún var árið 2008.

Við þessari þróun varar Samkeppniseftirlitið í skýrslum sínum, ræðum og málflutningi. Skilaboðin þaðan til okkar á Alþingi eru mjög skýr, þau að frekari samþjöppun muni gera það að verkum að hér verði minni samkeppni og þjónusta við almenning og fyrirtæki verri fyrir þeirra hluta sakir.

Í þessari umræðu hefur komið mjög skýrt fram hver vilji Alþingis er. Hann er augljóslega sá að við viljum ekki að hér verði frekari samþjöppun á fjármálamarkaði. Við viljum að hér verði áfram starfrækt öflugt sparisjóðakerfi. Ég bið hæstv. fjármálaráðherra að líta á það sem jákvæða hvatningu henni til handa frá þingmönnum úr öllum flokkum sem hér hafa talað um að við viljum hafa hér öflugt net sparisjóða sem ekki síst sinnir þjónustu úti um landsbyggðina. Ef sparisjóðakerfið hrynur mun það rýra mjög fjármálaþjónustu á landsbyggðinni og þar með atvinnuuppbyggingu.

Ef við skoðum síðan þessi mál í þessu samhengi er ljóst að ríkissjóður hefur mikla hagsmuni. Ríkissjóður er langstærsti eigandi í sparisjóðunum almennt talað og nú stöndum við á algjörri ögurstundu. Ef það verður frekari samruni, ef Afli verður rennt inn í Arion banka mun það mögulega granda sparisjóðakerfinu (Forseti hringir.) okkar því að Afl er með um einn fjórða af sparisjóðakerfinu. Við erum sem sagt á ögurstundu, á örlagastundu, (Forseti hringir.) og við verðum þess vegna að taka í taumana.