141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

staða sparisjóðanna.

[14:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram og þakka ráðherra fyrir svörin. Ég held að það megi að sumu leyti draga umræðuna saman í setningu sem hæstv. utanríkisráðherra sagði hér í gær. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Ég tel að það væri atlaga að hagsmunum neytenda á Íslandi ef Arion banki tæki yfir Afl sparisjóð á Siglufirði.“

Þarna liggur í rauninni verkefnið á næstu dögum, það að koma í veg fyrir með öllum tiltækum ráðum að sú yfirtaka sem Arion banki er með á prjónunum nái fram að ganga. Mér finnst eðlilegt að spyrja hæstv. ráðherra hvort ríkisvaldið geti og muni grípa til einhverra aðgerða til að koma í veg fyrir að Arion banki gleypi Afl sparisjóð því að mér sýnist að mörg rök séu fyrir því að koma í veg fyrir að slíkt gerist og að ríkisvaldið beiti sér af mikilli hörku til að það nái ekki fram að ganga. Ég fullyrði, herra forseti, að það er mikill einhugur meðal þingmanna, í það minnsta þeirra sem hér hafa talað, um að bakka ráðherrann og ríkisvaldið upp í að láta þetta ekki ná fram að ganga. Ég hvet hæstv. ráðherra til dáða og ríkisstjórnina alla til að standa saman við að koma í veg fyrir þetta.

Við erum sammála um mikilvægi sparisjóðanna. Það var mikið fyrir hrunið og það verður það líka í framtíðinni og að sjálfsögðu er það von okkar allra að sparisjóðirnir muni byggjast upp á þeim grunni sem þeir eru hvað þekktastir fyrir. Það er mikill vilji víða um land meðal heimamanna á mörgum svæðum, flestum svæðum fullyrði ég, að byggja undir sparisjóðina með því að leggja fé inn í þá til að þeir geti vaxið og dafnað. Þetta er okkar verkefni á næstunni.

Það er líka mikilvægt að horfa til þess að hagsmunir ríkissjóðs eru geysilega miklir þegar ríkissjóður heldur á um 40% af öllum hlutum í sparisjóðakerfinu í dag. Það eru miklir hagsmunir sem okkur öllum ber að verja og það gerum við best með því að efla (Forseti hringir.) og styrkja sparisjóðakerfið til muna.