141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[14:58]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Fyrst um hagkvæmni í greininni og hvort ekki hefði verið hægt að hagræða í greininni miðað við takmarkað aðgengi að aflaheimildum. Ég er talsmaður þess að við höfum veiðistýringu en ég tel að gallar framsalsins hafi komið berlega í ljós og það hafi ekki verið rétt að ganga í skjóli hagræðingar svo óheft fram í því framsali sem gert var. Ég tel að það hefði verið hægt að hagræða og laga sig að þeim veiðiheimildum og því magni sem var í boði hverju sinni miðað við þá veiðiráðgjöf sem við förum eftir hjá Hafrannsóknastofnun og að ekki hafi verið þörf á þessari óheftu markaðsvæðingu sem bitnaði á byggðum og samfélögum án þess að neinn gæti ráðið við það.

Varðandi strandveiðarnar tel ég að þær hafi svo sannarlega sannað sig. Það hafa verið gerðar úttektir á strandveiðum sem sýna að þar er mikil nýliðun. Kvótalitlar útgerðir sem voru fyrir í krókaaflamarkskerfinu hafa á sumrin notið góðs af því að geta stundað strandveiðar og haft þar með lifibrauð af þessari atvinnu allt árið. Það þekki ég mætavel sjálf. Ég held að strandveiðarnar hafi vissulega sannað tilverurétt sinn og séu sem betur fer komnar til að vera. Ég heyrði á máli hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar að hann er hlynntur áframhaldandi strandveiðum.

Varðandi fjölgun í krókaaflamarkskerfinu og magnið þar tek ég bara undir það, ég er mjög hlynnt því að krókaaflamarkskerfið starfi áfram og þetta sé tvískipt innan aflamarkskerfisins, en ég var aftur á móti mjög ósátt við það að framsal væri sett þar á því að þar með gekk það sama yfir litla kerfið og yfir það stóra, mikil samþjöppun og byggðaröskun í kjölfarið.