141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[15:00]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í svo mörgu sem hv. stjórnarliðar ræða um, og á við í þessu máli, gengur hugmyndafræðin ekkert upp. Auðvitað gengur það ekki upp að viðhalda sama fjölda fiskiskipa, sama fjölda sjómanna og ætla um leið að leita hagræðingar. Hið sama á við í krókaaflamarkskerfinu. Ef við ætlum að leita hagræðingar þurfum við að draga úr kostnaði við sóknareininguna og það hefur óumflýjanlega í för með sér að skipum fækkar og það getur komið við byggðir landsins. Þetta var fyrirsjáanlegt. Eitt af markmiðum kvótafrumvarpsins, sem var í sjálfu sér ekkert óumdeilt, var að leita þessarar hagræðingar.

Það sem er síðan í hrópandi ósamræmi í málflutningi hv. stjórnarliða í þessu máli núna er að búið er að sýna óyggjandi fram á það af hálfu hagsmunaaðila, t.d. Landssambands smábátaeigenda, og hlutlausra sérfræðinga sem nefndin hefur fengið til að gera úttekt á þessum frumvörpum fyrir sig, að þetta mun hafa þær afleiðingar (Forseti hringir.) að samþjöppunin verður enn meiri og mun koma langverst niður á (Forseti hringir.) litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Hvernig ætlar hv. starfandi formaður (Forseti hringir.) atvinnuveganefndar að svara þeirri gagnrýni? (Forseti hringir.) Hvernig ætlar hún að stuðla að því að (Forseti hringir.) þróunin verði ekki með þeim hætti?