141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[15:06]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að koma inn á hvar ég sé tækifæri fyrir byggðir eins og á Vestfjörðum, á Vesturlandi og Norðvesturlandi, þ.e. í mínu kjördæmi. Ég sé mikil tækifæri í þeim stækkandi leigupotti sem verður á næstu þrem árum og mun fara upp í um 30 þús. tonn, bara leigupottur ríkisins, fyrir utan það magn sem fer í gegnum kvótaþing af því aflamarki sem útgerðir mega leigja frá sér, sem sagt 25% af úthlutuðu aflamarki innan ársins. Ég tel að þetta muni stuðla að því að það verði jafnara framboð á aflaheimildum sem gerir útgerðum kleift að gera út á kvótaþing og leiguheimildir.

Í dag er ekkert öryggi hjá þeim útgerðum sem hafa ekki nægan kvóta til þess að vera sjálfbærar. Þær eiga allt undir einhverjum öðrum útgerðaraðila, hvort hann yfir höfuð leigir frá sér eða að verðið sé svo hátt að það borgi sig ekki að leigja aflaheimildirnar þó að menn neyðist kannski til þess að leigja til sín meðaflategundir, t.d. ýsu. Ég tel þetta gefa mikil tækifæri fyrir utan það að strandveiðarnar eiga eftir að aukast mikið ef aukning verður í þorski og ufsa. Það að vera með hlutdeild upp á 3,6% stækkar þann pott mikið og með því að styrkja eigandahlutann, þ.e. að sá sem rær sé eigandi og að ekki sé strandveiðileyfi á margar kennitölur, eykur og styrkir grunninn fyrir þá sem eru á strandveiðum.

Við þetta verða miklu fleiri dagar en verið hefur í hverjum mánuði og þetta allt tel ég styrkja (Forseti hringir.) mitt kjördæmi sem og önnur.