141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[15:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi fundið það út úr frumvarpinu að það muni draga úr þjóðhagslegri hagkvæmni sjávarútvegsins nái frumvarpið fram að ganga. Maður veltir því fyrir sér þegar maður les í gegnum það og rifjar upp athugasemdir sem komu fram við fyrra frumvarp þá var það eina megingagnrýnin sem kom fram, þ.e. að þetta mundi draga úr hagkvæmni sjávarútvegsins. En að sama skapi sýnist manni að sumt sem hér um ræðir í tengslum við sérstaka veiðigjaldið sem var lagt á að það hvetji í rauninni til samþjöppunar í greininni. Mér sýnist því að þetta rekist hvert á annars horn. Ein aðgerðin virðist leiða til samþjöppunar, því að menn treysta sér ekki til að starfa í umhverfi þar sem veiðigjaldið er svona hátt, og frumvarpið sem hér um ræðir er beinlínis til að draga úr hagkvæmninni með öllum tilteknum ráðum að manni sýnist.