141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[15:38]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kom örlítið inn á það í ræðu minni sem snýr að því að alltaf er verið að fjalla um og deila um hvort það eru litlir eða stórir bátar sem veiði fiskinn, grænir eða rauðir, frambyggðir eða afturbyggðir. Við erum aldrei að ræða það sem skiptir mestu máli. Ef menn ræða við fólk í sjávarútvegsgreininni — hvar eru menn með fókusinn þar? Á því hvernig við getum skapað meiri verðmæti, gert meiri verðmæti úr aflanum bæði með meðferð, með nýrri markaðssetningu, með betri nýtingu o.s.frv.

Ég las nýlega viðtal við útgerðarmann í Grindavík, Pétur Pálsson, þar sem hann fór einmitt yfir það hvar möguleikarnir væru til að auka nýtinguna, auka verðmætin og auka útflutningsverðmætin, auka þá þar með getu ríkissjóðs til að standa undir velferðarkerfinu o.s.frv. En við erum alltaf í þeim fókus, eins og ég orðaði það í ræðu minni, að vera í einhverri yfirborðsumræðu. Fókusinn á að vera á markaðsmálunum, hvernig við getum aukið nýtinguna og þar fram eftir götunum, það eigum við að ræða. Ég sé ekki þá sýn í frumvarpinu.