141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[15:49]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Þóroddur Bjarnason, prófessor og stjórnarformaður Byggðastofnunar, skrifaði á mjög gagnrýninn hátt um fyrri frumvörp ríkisstjórnarinnar. Þar kom hann meðal annars inn á þá óvissu sem hv. þingmaður talar hér um og sagði að óvissa um framtíðina og rekstrarumgjörðina væri einn af þeim þáttum sem drægi mjög úr byggðafestu, eins og hann orðaði það.

Mig langar að spyrja hv. þingmann vegna þess að sá sem hér stendur hefur fengið símtöl undanfarið frá litlum útgerðum í Norðvesturkjördæmi, sem er kjördæmi okkar beggja, þar sem menn tala meðal annars um að þeir hafi leitað til stærri sjávarútvegsfyrirtækja til að fá þau til að kaupa af sér aflaheimildir því að þeir séu ekki í stakk búnir lengur til þess að reka fyrirtæki sín í þeirri óvissu sem er og með þeim gríðarlegu veiðigjöldum sem hafa verið lögð á. Hefur hv. þingmaður fengið sambærileg símtöl? Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því sama og kemur fram hjá öllum þessum litlu útgerðaraðilum (Forseti hringir.) vítt og breitt um landið, m.a. Norðvesturkjördæmi?