141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[15:52]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Nokkur orð um hið nýja frumvarp til laga um stjórn fiskveiða. Þetta mál, um stjórn fiskveiða, er auðvitað eitt af helstu málum kjörtímabilsins af hálfu stjórnarmeirihlutans og ríkisstjórnarinnar …

Forseti er klukkan ekki í gangi eða er einhver ókunn klukka í gangi?

(Forseti (ÁÞS): Það verður reynt að koma klukkunni í gang.)

Já, þakka þér fyrir það. Ég kann betur við að hlíta reglu og vera innan ákveðins ramma og svigrúms í þessu.

Það mætti tala í lengri tíma en hér er til ráðstöfunar um forsögu þessa máls. Þó er rétt að minna á að margir fræðimenn telja að kvótakerfið frá níunda áratugnum hafi verið ein af grunnástæðum hrunsins sem við urðum fyrir hér fyrir nokkrum árum, að það hafi átt þátt í að skapa það hagkerfi og þann viðskiptabrag sem urðu okkur þar að falli. Kvótakerfið, gjafakvótakerfið eins og sumir kölluðu það, varð uppspretta nýs misréttis í samfélaginu með myndun forréttinda sem sum voru nánast tilviljunarkennd, en önnur féllu í hlut vildarvina með atbeina stjórnmálamanna og tilstyrk fjármálakerfis sem var innmúrað og innvígt. Kerfið olli því líka, ásamt ýmissi lausung af frjálshyggjutagi, að fé streymdi úr greininni og frá þeim byggðum sem mest reiddu sig á hana, í viðskiptaævintýri af hinu og þessu tagi, hérlendis og erlendis í bankakaup og hlutabréf, í verslunarhallir og líka í hreina eyðslu og flottræfilshátt hér og erlendis.

Margt var og hefur verið gert vel í sjávarútvegi á þessum tveimur eða þremur áratugum en ég held að sagnfræðingar eigi eftir að draga upp mjög dökka mynd af þætti þessa kvótakerfis og af þætti þeirra sem hafa haldið því við, þegar þeir skoða það úr hæfilegri fjarlægð. Jafnframt var rifjað upp að öll þessi ár, alla þessa áratugi, hvort sem menn vilja hafa þá tvo eða þrjá, hefur verið háð stöðug barátta um allt land gegn því óréttlæti og gegn þeirri óskynsemi sem kerfið felur í sér og sú barátta stendur enn. Það er í þágu réttlætisins en ekki síður skynseminnar sem ríkisstjórnin hefur gert að því þetta mörg tilhlaup og sem stjórnarmeirihlutinn er nú kominn fram með frumvarp sem hann styður gjörvallur.

Af því að hv. þm. Ásbjörn Óttarsson talaði um óvissu og öryggi og af því að fleiri gagnrýna þetta frumvarp og aðrar hugmyndir um breytingar á núverandi kerfi af þeim sökum að þar með skapist ekki það nauðsynlega öryggi sem menn þurfa svo sannarlega á að halda, útgerðarmenn, fjárfestar, sjómenn, landvinnslufólk, er það rétt að nokkru leyti. Auðvitað er spunnið glatt, hinn frægi grátkór syngur og spinnur með góðum stuðningi Morgunblaðsins, sem grátkórinn keypti sér hér um árið. En þetta er að hluta til rétt, það eru líka allir sammála um (Forseti hringir.) að við þurfum að skapa til frambúðar …

(Forseti (ÁÞS): Ég vil vekja athygli á því að klukkan er enn frosin en unnið er að viðgerð.)

Forseti. Ég lít svo á að ég hafi þessar 15 mínútur sem hér um ræðir, en ekki þessar sex sekúndur sem ég hafði í upphafi ræðu minnar.

(Forseti (ÁÞS): Hún verður örugglega sett rétt þegar hún kemst í lag.)

Ég vonast til þess að forseti líti þá til mín með vorkunn þegar kemur að því, skipulagning ræðu hér í stólnum fer nú svolítið eftir því hvað klukkan sýnir. En ég held hér áfram.

Við þurfum að skapa til frambúðar skipulag fyrir fiskveiðar og vinnslu á Íslandi, þann ramma sem menn geta með einhverjum hætti haldið sér í vegna þess að frægt óöryggi í þessari grein til lands og sjávar er feikilega mikið af náttúrulegum ástæðum vegna ástands sjávar, að ég tali nú ekki um nú á tímum þegar loftslagsbreytingarnar eru farnar að hafa áhrif og vegna sveiflna á mörkuðum og vegna þess hvað við eigum mikið undir nákvæmlega þessari grein. Við eigum það nú aftur, eftir að menn héldu að komið væri á eitthvert jafnvægi á græðgis- og hrunárunum.

Það verður að mínu viti og þeirra sem ég hlusta á í fyrsta lagi að gerast þannig að þjóðin fái fullt verð fyrir nýtingu sjávarauðlindarinnar — fullt verð, að jafnræði ríki og taki við af því lénskerfi sem nú hefur borið á í útgerð og fiskvinnslu og að hagkvæmni og arðsemi séu boðorðin í þessari atvinnugrein eins og öðrum. Að menn leggi af í sameiningu hugmyndir um að sjávarútvegurinn sé í sjálfu sér einhvers konar velferðarkerfi, að með einhverjum innri reglum í sjávarútveginum um rekstur fyrirtækja og um stjórn fiskveiða eigi að jafna kjör eða hjálpa byggðum. Það á ósköp einfaldlega að gerast með öðrum hætti, meðal annars með því fé sem sjávarútvegurinn aflar og rennur til hans eigin þarfa og einnig í ríkissjóð, bæði beint með veiðigjaldi og óbeint með sköttum.

Fyrr fæst ekki það öryggi við skipulag og stjórnsýslu sem menn þó vilja, þangað til verður óvissa hlutskipti sjávarútvegsins. Þess vegna er mjög mikilvægt að bæði stjórnarsinnar og stjórnarandstæðingar hugsi sinn gang mjög vel og komi sér niður á eitthvert það skref sem hægt sé að stíga í rétta átt í þessum efnum.

Þetta er eitt af helstu málum kjörtímabilsins, sagði ég í upphafi þessarar stuttu ræðu. Gangur nákvæmlega þessa máls hefur valdið vonbrigðum en því ber þó að fagna að við höfum náð mikilvægum áföngum. Við náðum mikilvægum áfanga með veiðigjaldinu á síðasta þingi. Annar mikilvægur áfangi er líka til umræðu á þinginu, auðlindaákvæði hinnar nýju stjórnarskrár sem segir að nýtingarleyfi hinna sameiginlegu auðlinda skuli veita á jafnræðisgrundvelli gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn og að slík leyfi megi aldrei leiða til eignar eða óafturkallanlegs forræðis.

Gallinn við frumvarpið er að sjálfsögðu sá að það færir sömu mönnum og fyrirtækjum og verið hefur heimild til nýtingar í 20 löng ár og heldur þar með við því misrétti sem verið hefur kjarni gjafakvótakerfisins hér í þrjá áratugi með því að viðhalda því sem sumir hafa kallað gullpottinn og er í raun og veru hið stóra kerfi sem 90% aflaheimildanna eru í.

Ég er í stuttu máli ósáttur við þá skipan mála. Ég hef hins vegar lengi verið reiðubúinn að fallast á umþóttunartíma við breytingar á kerfinu, jafnvel verulegan umþóttunartíma ef menn væru að breyta kerfinu í raun og veru. Þá spyr maður: Eru menn að því núna? Það er ekki víst, því miður, en í frumvarpinu eru þó stigin ákveðin skref og sum skrefin sem hér eru stigin gætu breytt vígstöðunni og haldið málinu á dagskrá. Þess vegna hef ég lýst yfir stuðningi við frumvarpið ásamt öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar. Vegna þess að kostirnir við það eru þessir: Með nýju nýtingarleyfunum er vissulega kominn annar lagarammi um fiskveiðar á Íslandsmiðum en áður. Sömu menn og fyrirtæki að stórum hluta, já, en það er minni hætta en áður á að þessi réttindi þeirra verði smám saman að eign eins og þeir hafa margir hverjir róið að öllum árum, dyggilega studdir hugmyndafræðingum á borð við Hannes Hólmstein Gissurarson sem haldið hefur fram kenningunni um landnám hafsins, hið síðara landnám íslenskra verðmæta og reynt í samræmi við frjálshyggjukenningar sínar að leggja þessa sameiginlegu auðlind þjóðarinnar undir séreignamenn.

Kostur við nýja kvótafrumvarpið er sá að þó að 20 ár séu langur tími er í frumvarpinu engin sjálfkrafa framlenging eins og háttaði til í síðasta frumvarpi sem hér sást um það efni. Það er mikilvægt. Stigið er skref en hér er ekki á ferðinni endanleg skipan. Settur er niður hópur til að endurskoða kerfið strax í ljósi reynslunnar og í ljósi þeirra sjónarmiða sem uppi eru í samfélaginu. Þar á meðal er auðvitað auðlindaákvæðið í nýju stjórnarskránni sem ég rakti áðan.

Kostur við frumvarpið, mikill kostur, kannski helsti kosturinn, eru ákvæði þess um kvótaleiguna, um útboð á markaði, um opinn leigumarkað sem hefst með þokkalegum hætti með rúmlega 19 þús. tonnum og sem verða um það bil 29 þús. tonn eftir tvö ár ef allt gengur vel. Að auki á að fara fram á kvótaþinginu það framsal sem útgerðunum er leyfilegt þannig að það gerist á opnum og gagnsæjum markaði þar sem menn geta boðið í eins og þeim sýnist og á markaði sem höndlar vonandi með það mikinn hluta eða það mörg tonn, það margar aflaheimildir og það mikið magn aflaheimilda að verð skapast á þeim. Það hefur þá vonandi mótandi áhrif á það verð sem tíðkast annars staðar, einkum það verð sem viðgengst í fyrirtækjum, sem gagnrýnt hefur verið mjög harðlega, þar sem hægri höndin og vinstri höndin tilheyra sama búknum og menn hafa samkvæmt nýlegri skýrslu — ég vísa til hennar, það er best að nota ekki hörð lýsingarorð — hagað sér með þeim hætti að ekki er sæmandi við verðlagningu innan fyrirtækjanna og ekki síst haft af sjómönnum þær tekjur sem þeir hefðu átt að fá.

Það er afar mikilvægt og er enn þá mikilvægara að til þess er heimild í frumvarpinu að hlutfall leiguheimilda á heildarheimildunum getur hækkað, hlutfallið getur hækkað, hægt er að „kaupa“ kvóta inn í leigupottinn ef vilji stendur til þess og það er mjög mikilvægt. Það er sem sé hugsanlegt (Gripið fram í.) og meira en hugsanlegt, það er beinlínis heimild til þess fyrir sjávarútvegsráðherra að auka hlut kvótaþingsins, kvótaleigunnar af heildaraflanum.

Gallinn er sá að leigan er ekki nema ár í senn og hefur ekki tekist að koma hæstv. sjávarútvegsráðherra í skilning um að ráðlegra væri að hafa lengri leigutíma og ábyggilegri, ekki síst vegna þess að í raun og veru er kvótaleiga það kerfi sem útgerðunum kæmi best þegar þær eru farnar að borga fyrir veiðiheimildir sínar. Þá væri auðvitað langskynsamlegast að útgerðirnar byggju við markaðskerfi í þessum efnum og gætu notfært sér það svigrúm sem viðskipti á kvótaþingi sem almenn regla gæfu þeim frá ári til árs, en þá auðvitað þannig að þau yrðu að geta haft undir töluverðan árafjölda í kvótaleigunni. Ég tel að ef það heppnast vel og ef menn vilja skilja hvers konar framfarir felast í því hljóti að koma til greina að opna það meira. Ég hvet menn í nefndinni til að íhuga hvort ekki megi opna heimild til þess að gera að minnsta kosti tilraun til að leigja í fleiri ár en eitt í senn, þótt menn haldi sig nokkurn veginn við þá málamiðlun sem hér er um að ræða.

Enn einn kostur við nýja frumvarpið er sá að opnað er á frjálsan kvótaleiguaðgang að nýjum tegundum. Nú renna nýjar tegundir beint inn í það forréttindakerfi sem hér líðst, ef upp kemur ný tegund á að kvótasetja hana og úthluta þeim heimildum samkvæmt ákveðnum reglum sem ekki gera ráð fyrir að jafnræði ríki og að nýliðun geti tekist. Það er sjálfsagt að láta menn njóta þess að hafa staðið sig við það að kanna og veiða nýjar tegundir en það getur ekki þýtt það að menn eigi þar með þær tegundir. Í 19. gr. er gert ráð fyrir því að jafnræði sé ein af þeim meginreglum sem taka skuli tillit til við endanlega skipun fiskveiðistjórnar þegar um nýjar tegundir er að ræða og það er mjög mikilvægt.

Það er líka kostur við frumvarpið að strandveiðarnar haldast inni sem fastur hluti. Þar þarf að sjálfsögðu að athuga annað frumvarp um strandveiðar sem liggur fyrir þinginu frá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur og hv. þm. Skúla Helgasyni, ég fékk að skrifa undir það hjá þeim og þó einkum Ólínu. Það þarf að halda þessu kerfi við en það þarf hins vegar að koma í veg fyrir kappsókn eða ólympískar veiðar. Það þarf að tryggja jafnræði og nýliðun. Það þarf líka að tryggja það, samanber það sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson sagði hérna ágætlega áðan, að það séu raunverulegir strandveiðimenn sem taki þátt í kerfinu og ekki leiguliðar frá stóru útgerðunum.

Það er líka kostur að ráðherraræði minnkar frá núverandi ráðherraeinveldi sem hér hefur tíðkast í marga áratugi og líka frá fyrri frumvörpum. Það er auðvitað alls konar bix inni, byggðabix meðal annars, ég bjóst ekki við að losna við þá sífelldu afturgöngu í sjávarútvegsfrumvörpum. Eðlileg skipan væri auðvitað að aðskilja byggðaaðstoð og sjávarútvegsstefnu, að borga illa stöddum byggðum styrk úr ríkissjóði til að kaupa sér kvóta á markaði í staðinn fyrir að úthluta þeim þessum kvóta með því móti að aldrei hefur tekist sátt um, og fleira mætti nefna sem kosti á frumvarpinu.

Það er að þessu sögðu undarleg gagnrýni sem heyrst hefur um þetta frumvarp og þau önnur sem hér hafa verið flutt og ég hef ekki verið sammála, að minnsta kosti ekki að öllu leyti, að leggja alla pottana að jöfnu, að dæma frumvarpið nánast út frá því að það séu of margir pottar. Ég veit ekki betur en að þeir svokölluðu pottar sem í frumvarpinu eru séu nákvæmlega þeir sömu og eru í núverandi kerfi og ég veit ekki til þess að það standi neinn sérstakur pólitískur ágreiningur um þá potta. Eða hvað? Er hv. þm. Pétur Blöndal á móti rækju- og skelkvótum? (PHB: Að sjálfsögðu.) Er hv. þm. Kristján Þór Júlíusson á móti línuívilnun? Ég veit ekki til þess. Eru raunveruleg pólitísk átök um frístundaveiðar eða áframeldi? Strandveiðarnar hafa verið umdeildar en mér heyrist í umræðunum að til dæmis hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins séu á ýmissi skoðun um strandveiðarnar og hægt er að ítreka þær spurningar sem þeir hafa fengið hér. Eru þeir á móti strandveiðum? Ætla þeir að afnema strandveiðar ef þeir fengju meiri hluta hér í næstu kosningum? Hv. þm. Einar Kr. Guðfinnsson var hér í umræðunum í gær og taldi að það mundi ekki verða. Hv. þm. Jón Gunnarsson var í umræðunum í dag og var mjög á móti strandveiðum. Mér heyrist hins vegar hv. þm. Ásbjörn Óttarsson vera með strandveiðum ef þær eru öðruvísi. Kannski styður hann frumvarp okkar hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur um þær.

Þetta eru ekki raunveruleg pólitísk álitamál. Eini potturinn svokallaði sem menn deila um er kvótaleigan. Það er aðgangur að aflaheimildum á opnum markaði. Það hefur verið gagnrýnt mjög. Það gagnrýnir Sjálfstæðisflokkurinn einna mest sem þykist þó byggja á lögmálum frjáls markaðar og vilja almenn viðskipti, vilja frjálsa verslun í landinu eins og ég og Jón Sigurðsson sem hér hangir á veggnum.

Forseti. Aðalkosturinn við þetta mál er (Forseti hringir.) að hér er komið nýtt kerfi sem hægt er að þróa í rétta átt. Það stenst stjórnarsáttmálann. Það stenst vonandi auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar. Það er málamiðlun (Forseti hringir.) sem samræmist stefnu flokks míns um skynsemi og réttlæti í sjávarútvegi þótt ég sé ósáttur við meginatriði þess.