141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[16:13]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það kann að hafa skroppið eitthvað út úr mér í lok ræðunnar en það sem ég átti við var að ég styddi frumvarpið þó að ég væri andstæður einu meginatriði þess. Ég er andstæður því meginatriði að aflaheimildirnar haldi áfram í 20 ár í viðbót í flokki 1, í gullpottinum, eins og sumir kalla, en ég legg það fram til málamiðlunarinnar að beygja mig undir það í þeirri von að breytingar verði á því tímabili. Ég nefndi það líka í ræðunni að þær breytingar gætu hafist strax. Málið er á dagskrá vegna þess að strax verður settur niður hópur til að endurskoða fiskveiðifrumvarpið og gert ráð fyrir að það komi fyrir þingið, ég man ekki hvort það er 2015 eða 2016.

Um makrílinn er ég algjörlega sammála hv. þingmanni. Ég tel að okkur hafi ekki tekist að úthluta makrílnum eins og vera ætti. Það er misskilningur að stjórnarmeirihlutinn hafi staðið með einhverjum hætti að því, það var sjávarútvegsráðherra gerði það. Sjávarútvegsráðherra ver þá ákvörðun sína með því að ekki hafi verið stætt á öðru samkvæmt núgildandi lögum um nýjar tegundir. Ég skal ekki leggja dóm á það hér en ég tel að í framtíðinni eigi að fara öðruvísi að. Þess vegna fagna ég því að ráðherra hefur heimild til þess núna að setja nýjar tegundir á kvótaþingið þegar ákveðinn tími er liðinn þótt mér þætti betra að sú umgjörð væri klárari og skýrari. Ég er hins vegar sammála því að ákveðinn tími þurfi að líða þannig að frumherjar og duglegir sjómenn hafi ákveðinn hagnað af því að finna nýjar tegundir sem þeir taka þá áhættu að fara út í með óljósan hag fyrir augum.

Ég tel því að við eigum að fara þá leið í framtíðinni (Forseti hringir.) og ég fagna því að hv. þingmaður skuli vera mér sammála um það. (Forseti hringir.)