141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[16:16]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Enn er ég sammála hv. þingmanni í meginatriðum. Ég skal ekki kveða upp úr með það hér hvort auðlindagjald á að renna beint í ríkissjóð eða í sérstakan auðlindasjóð. Ég tel að það séu ákveðnir kostir og gallar við báðar hugmyndir. Ég er sammála starfsmönnum fjármálaráðuneytisins um að við eigum ekki að hafa mikið af mörkuðum tekjustofnum og þegar gjald af þessu tagi er innheimt að þá eigi að forðast það að því sé skipt fyrir fram í einhverjum hlutföllum.

Ég sagði áðan að ég teldi að þeim réttmætu byggðasjónarmiðum sem Alþingi og stjórnvöld eiga að virða sé betur fyrir komið með sérstökum hætti en ekki inni í stjórnskipan atvinnugreinar, hvorki þessarar né annarrar, og ég er þeirrar skoðunar. Mér finnst þetta þó ekki það mikilvægt atriði að ég hafi agnúast sérstaklega út í skiptingu gjaldsins af viðskiptum á kvótaþingi.