141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[16:20]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég verð nú að benda hv. þingmanni á að spyrja frumvarpsflytjanda að þessu. Mér er ekki kunnugt um það hverjar áætlanir eru um nefndarskipun í þessu sambandi eða hvernig skipta eigi þessu fé milli sveitarfélaga. Ég var að svara hv. þm. Ásbirni Óttarssyni og var sammála honum um að ég væri ekki hrifinn af þessum reglum og ætla ekki að fara að skipta mér af því nákvæmlega hvernig þetta er gert. Ég hygg nú um markaðs- og þróunarsjóðinn að kannski verði ekki mjög flókið að úthluta úr honum en almennt tel ég að þetta fé eigi allt að renna í ríkissjóð eða auðlindasjóð og síðan eigi að úthluta fé til bágstaddra sveitarfélaga án nokkurs hroka eða tilfinningasemi í tengslum við skýra og mótaða byggðaáætlun sem við höfum hér. Nú, ég geri ráð fyrir að þetta sé málamiðlun, þetta sé til þess að sveitarfélögin telji sig ekki hafa misst spón úr sínum aski og get því sætt mig við þetta að minnsta kosti til málamiðlunar og til bráðabirgða.

Um stjórnarskrárþátt málsins þá held ég að þetta sé nú ekki alvarlegra en margt það annað fjárveitingavald sem framselt hefur verið. Við vorum til dæmis að framselja til ráðuneyta fjárveitingavald sem áður var hér á Alþingi að minnsta kosti að efni til, um úthlutun til félagasamtaka og annarra slíkra. Ég sé ekki að þetta sé mikið öðruvísi. Almennt sé ég nú ekki að þetta sé stórmál og fagna því fyrst og fremst greininni um kvótaþingið sem bæði sér um kvótaleigupottinn og síðan líka um þær heimildir sem útgerðirnar sjálfar vilja leigja sem er mjög mikilvægt til að stækka hlut þess afla sem seldur er á raunverulegum markaði og fyrir fæst raunverulegt verð.