141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[16:22]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skil hv. þingmann þá þannig að hans skilningur sé sá að hér sé verið að tala um sveitarfélög þar sem sjávarútvegur er stundaður. Það séu þá þau sveitarfélög sem geti fengið úthlutun úr þessum sjóði. Ég skil hv. þingmann þannig, hann leiðréttir mig ef það er rangur skilningur. En hv. þingmaður svaraði ekki spurningu minni um 1. mgr., þ.e. hve mikinn hluta ráðherra hefur heimild til að setja þarna inn samkvæmt heimild í 1. mgr. 19. gr. Þarna er þetta alveg opið. Ég átta mig ekki á því hvort við erum þarna að tala um lítinn hluta eða stóran hluta eða verður þetta síðan ákvæðið sem notað verður til þess að ríkisvæða þetta allt saman?