141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[16:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að mínu viti er alveg augljóst að frumvarpið þarf að fá vandaða umsögn, vandaða meðferð í nefndinni. Ég ætla að nefna tvö dæmi.

Í frumvarpinu er lagt til að gerðir séu nýtingarsamningar. Það er ekki gert ráð fyrir að þeir séu framlengjanlegir heldur einhver nefnd skipuð. Það er eitthvað sem ég held að þurfi að fara mjög vandlega yfir. Hvað þýðir það nákvæmlega? Til dæmis hvert hlutverk eða valdsvið þeirrar nefndar verður nákvæmlega o.s.frv.

Í bráðabirgðaákvæði VIII eru ákveðnar breytingar á því hvernig ráðstafað er í þessa potta. Það þarf líka að fara yfir það. Af hverju er ekki gengið alla leið strax eða prósenturnar til dæmis jafnaðar, jafnað milli útgerðarflokka eða jafnað milli tegunda hversu mikið er greitt í þessar bætur? Af hverju er þorskurinn látinn borga mest áfram og ýsan o.s.frv.? Af hverju er það ekki jafnað strax? Það eru hlutir sem þarf að fara yfir og reikna út til að sjá hvaða áhrif þeir hafa.

Að sjálfsögðu þarf líka að fara yfir hvað það þýðir að miðað við óbreytta úthlutun á aflamarki, aflahlutdeild, sé potturinn orðinn 45–46 þús. tonn 2016 eða 2017. Hvaða áhrif hefur það miðað við óbreytta úthlutun ef það vex ekki eða fiskunum okkar sem við getum veitt fjölgar ekki? Hvaða áhrif hefur það? Allt það verður að fara vel yfir. Það er algjörlega óásættanlegt þegar við ræðum svona mikilvæga grein eins og sjávarútveginn að það sé kastað til höndunum. Það gengur ekki.