141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[16:48]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þetta sjónarmið. Það er líka mín skoðun að þrátt fyrir að manni virðist í fljótu bragði í grundvallaratriðum ekki vera veigamiklar breytingar á frumvarpinu er vissulega verið að gera breytingar. Það kom einmitt fram hjá Daða Má Kristóferssyni sem var annar þeirra sérfræðinga sem nefndin fékk til að fara yfir það á sínum tíma, að það væri til bóta en þyrfti að skoða áhrifin mikið betur. Ég held að það sé ljóst miðað við það að nefndin þarf að fara með þetta í ákveðið ferli sem mun kosta ákveðinn tíma.

Ég vil viðra skoðun mína og fá skoðun hv. þingmanns á henni: Er þetta ekki eitthvert leikrit sem er verið að taka þátt í eina ferðina enn í þinginu? Er einhver von til þess miðað við eðlilega málsmeðferð að málinu muni ljúka á yfirstandandi þingi og fyrir kosningar? (Forseti hringir.) Nú eru 15 þingdagar eftir í þinginu og það (Forseti hringir.) er verið koma fram með gríðarlegt hagsmunamál á síðustu metrunum. Er nokkur von til þess að málinu ljúki? Er verið að (Forseti hringir.) setja eitthvert leikrit á svið fyrir komandi kosningar?