141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[16:54]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé nákvæmlega atriðið sem skiptir máli, að menn horfist í augu við staðreyndirnar. Það sem hefur verið gert á undanförnum fjórum árum eru einhverjar hristimaskínur eins og í hlutaveltum sem krakkar efna oft til þar sem eru ekki neitt nema afgangsvinningar. Það er gaman að því en það er ekki til árangurs og síst af öllu til að byggja upp þá atvinnugrein sem íslenska þjóðin byggir í stærstum dráttum á.

Það eru kaflar í frumvarpinu sem maður áttar sig ekki á hvaðan slitrurnar eru. Eitthvað er um markaðshyggju, en það er óskiljanlegt. Eitthvað er úr minnisblöðum kommúnistastjórnarinnar sálugu í Sovétríkjunum. Maður áttar sig ekki heldur alveg á því hvaðan það kemur inn, en það virðist hafa verið til í bókahillum einstaka stjórnarandstæðinga (Forseti hringir.) og þeir hafa reynt að drusla því inn í þessi frumvörp, virðulegi forseti.