141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[17:26]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum nú, þegar um 15 þingfundadagar eru eftir af þessu kjörtímabili, þetta stóra mál er varðar sjávarútveginn; frumvarp til laga um stjórn fiskveiða heitir það. Hér er fullyrt af hálfu þeirra sem tala fyrir þessu máli og sitja í stjórnarliðinu að málið sé fullrætt og þurfi enga umræðu vegna þess að það hafi komið margoft fram áður. Engu að síður ber að spyrja, ef þetta er rétt og ef þetta er allt svona einfalt, hvers vegna málið var ekki lagt fram í tæka tíð þannig að tími gæfist til að fara almennilega yfir það. Hér hafa menn komið í röðum allt þetta kjörtímabil og talað um vönduð vinnubrögð, allt skuli vera uppi á borðum og menn megi ræða hér málin, þannig að það ber að gera þessa athugasemd og halda henni til haga.

Frú forseti. Ég hef í andsvörum mínum í dag, við þá hv. þingmenn sem hafa verið yfirlýstir stuðningsmenn þessa máls, gert athugasemdir við ákveðna hluti og langar að ræða aðeins um 19. gr. frumvarpsins, þar sem fjallað er um ráðstöfun til kvótaþings. Þar er í 1. mgr. fjallað um það að heimilt sé að ráðstafa aflamarki um kvótaþing og í reglugerð verði heimilt að skilyrða hluta ráðstöfunarinnar við útgerðir sem eru staðsettar á tilteknum landsvæðum sem hallað hefur á í atvinnu- og byggðalegu tilliti og að hluta til til meira en eins árs í senn.

Ég hef verið að spyrja, af því mér finnst það ekki ljóst af greinargerðinni sem fylgir og mér finnst það ekki ljóst af þeirri umfjöllun sem þetta mál hefur fengið og þeirri umræðu sem farið hefur fram, ég hef ekki fengið skýr svör við spurningum mínum: Hvaða hluta er verið að tala um? Hvað er átt við þegar talað er um í reglugerð að ráðherra sé heimilt að skilyrða hluta ráðstöfunarinnar við útgerðir sem eru staðsettar á tilteknum landsvæðum? Hvaða hluta er verið að tala um? Hvað er verið að tala um mikinn hluta? Mig langar að vita þetta. Fyrst menn hafa fjallað svona mikið um þetta, fyrst málið er svona skýrt og útrætt, hljóta menn að vita hvað þeir eiga við þegar þeir styðja þetta frumvarp, hvað þeir eiga við með þessu ákvæði.

Í öðru lagi er rétt að fjalla hér aðeins um 2. mgr. þessarar 19. gr., en þar er fjallað um það að tekjur þær sem aflað er við ráðstöfun aflamarks úr flokki 2, sem fjallað er um í þessu ákvæði, skuli renna í sérstakan sjóð á vegum ráðherra. Síðan kemur fram að úr sjóðnum sé ráðstafað samkvæmt reglum sem ráðherra setur, ríkið skuli njóta 40% tekna, sveitarfélög 40% tekna og markaðs- og þróunarsjóðir tengdir sjávarútvegi 20%.

Ég hef verið að spyrja hv. þingmenn, þá sem talað hafa á þann veg að þeir styðji þetta mál: Hvað er átt við hér? Hvaða sveitarfélög er í fyrsta lagi verið að tala um? Hvaða sveitarfélög er verið að tala um? Getur einhver svarað mér því? Veit það einhver sem styður þetta mál og situr í þessum sal, situr hugsanlega í þessum nefndum, hvaða sveitarfélög verið er að tala um? Er verið að tala um öll sveitarfélög á landinu eða er verið að tala um sveitarfélög sem hafa orðið fyrir einhverjum áföllum eins og sumir hv. þingmenn hafa talað um hér í einu orðinu? Er þá verið að tala um sveitarfélög sem hafa orðið fyrir skakkaföllum þar sem sjávarútvegur er starfræktur? Eða erum við bara að tala um sveitarfélög þar sem sjávarútvegur er ekki starfræktur? Mig langar að fá svar við þeirri spurningu. Það hlýtur að liggja fyrir fyrst málið er svona vel unnið.

Í bráðabirgðaákvæði nr. V er talað um að ráðherra skuli setja á fót nefnd með aðild samtaka sveitarfélaga og hagsmunaaðilum í sjávarútvegi sem geri tillögur um ráðstöfun þessara tekna sem fjallað er um í 2. mgr. 19. gr. Ég skil þetta þannig að setja eigi fjármuni í sjóð. Útdeilt verður úr þessum sjóði samkvæmt reglum frá einhverri nefnd sem í sitja hagsmunaaðilar í sjávarútvegi og samtök sveitarfélaga. Hvaða samtök sveitarfélaga er verið að tala um? Er verið að tala um landshlutasamtök? Einn þingmaður hélt því fram. Í greinargerðinni segir bara um þetta ákvæði að það þarfnist ekki skýringar. Ég þarf skýringar og kalla eftir skýringum. Er hér verið að tala um Samband íslenskra sveitarfélaga, stóru samtökin, eða er verið að tala um landshlutasamtök? Hvort heldur sem er geri ég athugasemd við það að einhverjum skuli detta í hug að hafa þessa hluti með þessum hætti þar sem fjárveitingavaldið er að mínu viti hér hjá Alþingi. Ef menn ætluðu sér að úthluta fjármunum til byggðarlaga þar sem menn telja að lífskjör séu ekki nægilega góð eða að atvinnuröskun hafi orðið eða eitthvað slíkt, þá tel ég að slík úthlutun eigi einfaldlega að vera hjá fjárveitingavaldinu en ekki hjá samtökum þar sem fulltrúar eru ekki lýðræðislega kjörnir.

Ég vek athygli á því, af því að einn hv. þingmaður taldi að þarna væri átt við landshlutasamtök sveitarfélaga, að þeir sem þar sitja eru ekki kjörnir beinu kjöri. Þannig að ef færa á þetta fjárveitingavald út til slíkra aðila geri ég við það verulegar athugasemdir. Ég kalla eftir skýringum á því og ef ég er að misskilja þetta mál kalla ég líka eftir því að menn komi og útskýri það, vegna þess að það stendur bara í greinargerðinni að þetta þarfnist ekki útskýringar.

Herra forseti. Menn segja hér að þetta sé að mestu leyti óbreytt frumvarp og það getur vel verið að það sé rétt. En það hefur verið talað um þetta mál, breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu, í löngu máli allt þetta kjörtímabil. Allt þetta kjörtímabil hefur ríkt mikil óvissa í sjávarútveginum um það hver framtíðin verði, hver stefnan sé hjá stjórnvöldum og hvað menn ætli nú að gera. Því hefur verið hótað að gjörbylta eigi sjávarútvegskerfinu og menn hafa margoft lagt fram mál í þá veru. Við könnumst við umræðuna frá því og löggjöfina varðandi veiðigjaldið. Nú erum við með þetta stóra mál.

Þessi óvissa, sem grundvallaratvinnugrein okkar hefur þurft að búa við í mörg ár, hefur haft þær afleiðingar að þrátt fyrir að mikil fjárfestingargeta og fjárfestingarþörf sé í sjávarútveginum hafa menn haldið að sér höndum af því menn hafa ekki áttað sig á því hvert verið er að stefna.

Á þeim tímum sem við nú lifum, þegar við þurfum á því að halda að grundvallaratvinnugrein okkar dragi vagninn og hjálpi okkur við að endurreisa íslenskt atvinnulíf, er stuðlað að óvissu í stað þess að stuðla að öryggi umhverfis þessarar grundvallaratvinnugreinar. Það er ábyrgðarhluti.

Ég átta mig á því að auðlindin í hafinu er takmörkuð. Auðvitað er það alltaf þannig að þegar takmörkuð gæði eru til skiptanna eru alltaf einhverjir sem telja sig ekki fá næg gæði í sinn hlut. Það verður alltaf umdeilt hvernig slíkum gæðum verður úthlutað og hvernig slík gæði eru nýtt, alveg sama hvaða kerfi er notað.

Staðreyndin er sú að þrátt fyrir að núverandi kerfi sé ekki gallalaust frekar en önnur mannanna verk, er það samt að mínu mati besta fyrirkomulag sem völ er á. Við þekkjum það að meira að segja Evrópusambandið hefur litið hingað heim og sagt að við eigum mjög áhugavert og gott fiskveiðistjórnarkerfi. Þetta hefur Evrópusambandið sagt. Ýmsir hafa haldið því fram að Evrópusambandið hafi hug á því að horfa til okkar og jafnvel, þegar þeir taka til við að breyta fiskveiðistefnu sinni, að líta til okkar sem fyrirmyndar. Þrátt fyrir það eru aðilar sem eru að sækja um aðild að sama batteríi, þ.e. Evrópusambandinu, að leggja til grundvallarbreytingar á þessu kerfi. Ég skil ekki alveg samhengið í þessu, herra forseti.

Það er rétt að andstæðingar núverandi fiskveiðistjórnarkerfis eru við völd í landinu, það fer ekkert á milli mála og hefur ekki farið á milli mála á þessu kjörtímabili. Hér er lögð til mikil breyting á kerfinu. Nú þegar hefur verið lögð til og lögfest stórfelld skattheimta á kerfið og með því hafa fjármunir verið teknir frá sjávarútvegsfyrirtækjunum, sem annars færu í fjárfestingu og styrkingu útgerðar og vinnslu, og þeim hefur verið útdeilt til ýmissa verkefna í fjárlögum sem lögð voru fram og samþykkt í desember, sem þáverandi fjármálaráðherra kallaði sannkölluð kosningafjárlög. Þá vitum við það.

Jafnframt hefur það verið sagt og var sagt af forsætisráðherra, þegar umræður áttu sér stað varðandi veiðiskattinn, að með því frumvarpi og þeim lögum hafi helsta meinsemd kerfisins verið löguð með því að taka arðinn af útgerðunum og færa í sjóð auðlindarinnar, ríkissjóð. En það var einmitt þannig að skatturinn sem lagt var til að yrði settur á var langt umfram gjaldþol sjávarútvegsins og um það báru vitni allir umsagnaraðilar. Þrátt fyrir það datt fólki hér í hug, fólki sem stjórnar landinu okkar, að fara með málið í gegn. Menn lögðu það til og töluðu fyrir því hér í ræðustól unnvörpum, menn úr stjórnarliðinu. Auðvitað hefur þetta leitt til þess að mikill uggur er í þeim aðilum sem eru í útgerð, sérstaklega í litlu og meðalstóru útgerðunum. Við höfum heyrt af því og orðið vör við það að menn séu áhyggjufullir yfir því að eftir nokkurn tíma verði hér eingöngu örfáar stórar útgerðir til staðar.

Við Íslendingar höfum öll mikla hagsmuni af því að vel gangi í sjávarútveginum vegna þess að þetta er grundvallaratvinnugrein okkar. Ef sjávarútvegurinn verður fyrir áfalli verðum við öll, öll íslenska þjóðin, fyrir áfalli. Ég tel að sú skattheimta sem nú er komin á verði til þess til lengri tíma að draga úr tekjum ríkisins af sjávarútvegi og gera þar með lífskjör okkar allra verri.

Herra forseti. Ég tel að við eigum mikla kosti, við Íslendingar, og mikil tækifæri, sem felast helst í því að við eigum miklar auðlindir. Við eigum að nota þá staðreynd sem okkar helsta sóknartækifæri með því að halda rétt á spilunum, með því að nýta auðlindirnar okkar skynsamlega og leyfa því harðduglega fólki, því fólki sem hefur mest vit á því hvernig við náum mestum arði út úr greininni, að vinna í friði og vinna í öruggu starfsumhverfi.

Nú stendur til að fara í einhverja endalausa potta, færa ráðstöfun fjármuna inn í einhverjar óskilgreindar nefndir sem ráðherra hefur öll tök á að handstýra hvernig sem honum svo sýnist og á óskiljanlegan máta. Það er ekki einu sinni ljóst hvert þeir fjármunir eiga að renna, til hverra. Það er algjörlega látið í hendur ráðherra eftir því sem mér skilst á þessum málatilbúnaði. Ég get einfaldlega ekki, herra forseti, verið sammála þessum vinnubrögðum eða þessari stefnu.

Þegar lagðar eru fram tillögur þar sem boðaðar eru viðamiklar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu ber okkur skylda til að fara vel yfir málið. Mér er alveg sama, herra forseti, þó að ríkisstjórnin hafi rætt þetta á fjölmörgum fundum í meirihlutasamskiptum sínum og verið að gera einhverjar málamiðlanir. Okkur sem störfum á Alþingi ber að horfa á hlutina með gagnrýnum hætti, ræða málin, vinna þau í nefnd og reyna að laga það sem við teljum að sé ekki hagsmunum heildarinnar til góða. Það með hvaða hætti stjórn fiskveiða verður háttað til lengri tíma má ekki ráðast af því að menn í stjórnarsamstarfi séu að reyna að lengja í lífdögum þeirrar ríkisstjórnar.

Ég held því fram, herra forseti, að frumvarpið sé lagt fram mjög seint vegna þess að í stjórnarliðinu hafi menn ekki verið sammála. Nú hafa menn loksins pundað þessu frá sér vegna þess að þeir hafa náð að tala sig niður á einhverja málamiðlun í stað þess að reyna að finna bestu leiðina fyrir grundvallaratvinnugrein okkar. Ég vorkenni mönnum ekkert að þurfa að standa hér og standa fyrir máli sínu. Ég vorkenni mönnum ekkert að þurfa að vera í umræðum um þetta mál og ég skil ekki þá sem hafa haldið því fram að ekki þurfi að ræða málið. Auðvitað þarf að ræða málið. Það þarf að senda það til umsagnar og ítarleg vinna þarf að fara fram í nefndum.

Ég vonast til þess, herra forseti, eins og ég ítrekaði í fyrri hluta ræðu minnar, að ég fái einhver svör við því, útskýringar á þessari 19. gr. með tilliti til bráðabirgðaákvæðis V.