141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[17:44]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, við erum stór fiskveiðiþjóð. Sjávarútvegur er undirstöðuatvinnugrein í okkar samfélagi, ekki bara vegna veiða og vinnslu heldur vegna alls sem af þessari atvinnugrein er sprottið í formi annarra starfa. Við eigum auðvitað að vera stolt af okkar undirstöðuatvinnuvegi og skapa honum sem best rekstrarskilyrði. Um þetta erum við sammála.

Sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins miðar að sjálfbærni. Hún miðar að samfélagslegum þáttum. Hún miðar að svo mörgu því sem við erum einmitt að taka upp í fiskveiðistefnu okkar, Íslendingar. Það er vel. En það er langur vegur frá því að sú fiskveiðistefna sem hægt er að lesa á netsíðum Evrópusambandsins sé einhver eftiröpun á núgildandi fiskveiðistjórnarkerfi hér á Íslandi. Það er langur vegur frá því að þeir séu að stefna að því að ná inn í sína fiskveiðistefnu einhverri eftirlíkingu af því sem er við lýði í óbreyttu fiskveiðistjórnarkerfi okkar Íslendinga.

Við erum þvert á móti, líkt og þeir og allar ábyrgar þjóðir, að skoða starfsumhverfið í þessari stóru og veigamiklu grein. [Hávaði í þingsal.] Við lítum til samfélagslegra þátta og mikilvægis þessara greina fyrir byggðir landsins, eflingar atvinnu og svo margra þátta sem skipta máli umfram arðsemi greinarinnar sjálfrar. Það sýnist mér Evrópusambandið líka vera að gera, en það er ekki bundið við það kerfi sem við búum við í dag eða þær aðferðir sem þar eru viðhafðar.