141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:03]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir ræðuna. Þetta er auðvitað yfirgripsmikið frumvarp og ekkert skrýtið að menn komist ekki í gegnum það á 15 mínútum. Það sem mig langaði að spyrja hv. þingmann um og mér fannst hann koma svolítið inn á er að ekki væri gætt mikils jafnræðis. Menn hafa talað um tilganginn fyrir því að leggja fram þessi frumvörp. Þetta er fjórða frumvarp ríkisstjórnarinnar, reyndar það þriðja sem kemur inn en þetta er í það minnsta fjórða tilraunin á þessu kjörtímabili. Maður skyldi ætla að í lok kjörtímabilsins væru menn búnir að finna allar leiðir til að sníða vankanta af og loka öllum götum. Í þessu síðasta frumvarpi er lagt til að nýtingarsamningar verði til 20 ára, eftir það verður alger óvissa. Hvað telur þingmaðurinn að slík óvissa geti þýtt fyrir rekstrarumhverfi fyrirtækjanna? Tekur hann undir það með mér að í því felist slík óvissa að enn og aftur þurfi að fá sérfræðinga til þess að leggja mat á hvað þetta þýði?

Ég vil einnig spyrja og þá hugsanlega út í stefnu Sjálfstæðisflokksins er varðar byggðaþáttinn því að ævinlega hefur verið talað um hann og gegnumgangandi málflutningur stjórnarliða, í það minnsta, hefur verið sá að þeir séu alltaf að reyna að bæta í og styrkja byggðir með því að taka af einum og öðrum og deila síðan út með pólitísku valdi hingað og þangað. Nú vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann sé hlynntur þessum aðgerðum eða hvort hann telji, eins og við framsóknarmenn, að fara eigi í aðrar aðgerðir og treysta ekki á að greinin sjálf geti byggt upp landsbyggðina heldur þurfi að stækka (Forseti hringir.) atvinnusvæðin með því að nýta það fjármagn sem kemur inn með veiðigjöldum og (Forseti hringir.) með öðrum hætti til atvinnuuppbyggingar í öðrum atvinnugreinum en sjávarútvegi … (Forseti hringir.)