141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er svo skemmtilegt að við séum einmitt að ræða þetta mál núna því að næsta mál á dagskrá er stjórnarskráin og þar er til dæmis verið að ræða um jafnt atkvæðavægi milli íbúa landsins. Flestir eru hlynntir því, en inn í það kemur nefnilega byggðasjónarmið. Menn segja að ríkisvaldið hafi byggst upp í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu og að íbúar landsins þurfi að sækja þjónustu til Reykjavíkur með miklum kostnaði og búa meira að segja við skerta þjónustu. Ég get alveg séð fyrir mér að til þess að gæta jafnræðis milli borgaranna yrði annaðhvort ríkisvaldið hreinlega flutt út á land, eins og menn hafa svo sem lengi reynt, eða fólki tryggður jafnmikill kostnaður og fólki sem býr í Reykjavík, þ.e. menn yrðu hreinlega styrktir til að sækja þá þjónustu sem er í Reykjavík með þeim formerkjum að atkvæðavægi hefði verið jafnað.

Ég held að það að þvinga einhvern veginn ákveðinni atvinnustarfsemi upp á tiltekna staði sé mjög slæmt. Eins og hv. þingmaður nefndi er vonlaust að reyna að hafa veiðar og vinnslu á hverjum einasta stað þar sem það hefur verið áður. Það hafa ákveðnar eðlilegar breytingar verið í gangi.

Svo vil ég minna á, talandi um mína sýn, að ég hef lagt fram frumvarp til skoðunar sem byggir á því að dreifa öllum veiðiheimildum á þjóðina, hvern einasta íbúa, að það verði algjör markaðsvæðing. Það er mín sýn og ég vildi gjarnan að menn skoðuðu það miklu nánar því að ég er nærri viss um að eftir þá hörmungarferð sem sjávarútvegurinn hefur upplifað síðustu 30 ár — það er búið að vera stöðugt stríð um eignarhald á kvótanum — að menn yrðu miklu betur settir með því að afskrifa um 2–2,5% á ári (Forseti hringir.) og hafa algjöra markaðsvæðingu.