141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:34]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að spyrja hv. þingmann um eitt atriði en vil fyrst taka aðeins umræðu um annað. Þingmaðurinn kom inn á það sem ég hef velt fyrir mér og fleiri í samfélaginu, en það er til hvers sé verið að leggja fram þetta frumvarp. Í viðtali við RÚV, stuttu eftir að málið var lagt fram, fór Daði Már Kristófersson yfir atriði í frumvarpinu og þær athugasemdir sem hafa verið gerðar til dæmis við síðasta frumvarp sem lagt var fram á síðasta þingi. Hann benti á að vissulega væri búið að taka einhver atriði þar út en ef menn bæru saman innihaldið við markmið laganna gengi það allt þvert á markmiðin. Þó svo að búið væri að taka eitt og eitt annað út væri minna og minna eftir og menn væru greinilega búnir að týna tilgangi þess að fara af stað með frumvarpið.

Þegar þetta frumvarp kemur fram í lok kjörtímabilsins svona illa unnið og skilur eftir fullt af spurningum ósvöruðum eins og t.d. um útfærsluna á kvótaþinginu, hvernig sveitarfélögin eigi að fá þessar tekjur og annað í þeim dúr, hvað eigi að gerast eftir 20 ár, getur maður spurt sig: Til hvers er það gert? Ég get varpað þeirri spurningu til hv. þingmanns.

Hin spurningin sem ég ætlaði að spyrja hv. þingmann um snýr að byggð í landinu. Það kom ekki skýrt fram í ræðu þingmannsins og ég hef reyndar ekki heyrt það hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Megintilgangur stjórnarflokkanna er í orði sá að styrkja byggð í landinu en þeim hefur mistekst það algjörlega. Þeir sem hafa gagnrýnt þetta, hvort sem það eru sérfræðingar í byggðamálum eða ASÍ, hafa alltaf sagt að þessi aðferð gangi ekki upp. Ég hefði áhuga á að heyra hver stefna Sjálfstæðisflokksins er í þeim málaflokki.