141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hafði kannski ekki tíma til að koma inn á stefnu Sjálfstæðisflokksins varðandi það hvernig eigi að leysa þetta mál og styrkja byggðirnar. Ég vil spyrja hvort hv. þingmaður taki til að mynda undir með prófessor Þóroddi Bjarnasyni sem hefur sagt að ekki sé hægt að styrkja allar byggðir landsins og tryggja þær á grundvelli veiða og vinnslu. Auðlindin sé takmörkuð og það þurfi að fara aðrar leiðir. Við framsóknarmenn höfum bent á það. Þetta frumvarp er aftur á móti sama marki brennt og fyrri frumvörp ríkisstjórnarinnar. Það er áfram reynt að krukka í þessu, hræra svolítið í þessu, taka frá hinum og þessum og gefa síðan ráðherra þá heimild að deila því út eftir „behag“, liggur við, og eftir því hvað þeim dettur í hug.

Það sem ég hefði áhuga á að heyra er hvaða leið Sjálfstæðisflokkurinn telji færa, hvernig Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja að byggðir í landinu geti eflst.