141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:42]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að inna hv. þingmann eftir svari við þeirri spurningu sem hún svaraði ekki frá hv. þingmanni Lilju Rafney Magnúsdóttur: Hvernig metur hún áhrif núverandi kvótakerfis á hennar byggðarlag, þ.e. Vestmannaeyjar? Hvernig metur hún það til að mynda í ljósi þeirrar stöðu sem upp hefur komið þegar aflaheimildir hafa runnið þaðan í stórum stíl?

Hv. þingmaður talaði um að verið væri að troða hugmyndafræði upp á þjóðina og þingið. Hvar var sú hugmyndafræði samin? Hún var samin í sáttanefndinni sem í áttu sæti fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna og hagsmunaaðila, þar á meðal helsti talsmaður Sjálfstæðisflokksins í sjávarútvegsmálum, þingmaðurinn Einar K. Guðfinnsson. Hann ræðir í bókun sinni við afgreiðslu nefndarinnar á þeim tíma um samningaleiðina sem niðurstöðu sem nær allir nefndarmenn hafi samþykkt eftir að hafa farið yfir ýmsa þá kosti sem til grundvallar lágu. Hann bendir réttilega á að til grundvallar liggi vandaðar úttektir og segir að niðurstaðan sé í samræmi við leikreglur sem gilda muni við nýtingu annarra auðlinda. Síðan segir þingmaðurinn í bókun sinni, með leyfi forseta:

„Langtímasamningar um fiskveiðiréttindi, þar sem byggt er á aflahlutdeildum, ættu að skila þeim árangri að unnt verði að marka sjávarútveginum öruggt rekstrarumhverfi til langs tíma.“

Hann bætir við:

„Tilraunir til þess að víkja frá þeim meginsjónarmiðum sem liggja til grundvallar nær einróma niðurstöðu fjölskipaðrar nefndar ólíkra hagsmunahópa og stjórnmálaflokka væri bara hægt að túlka sem rof á samkomulagi sem menn gerðu í góðri trú.“

Nú spyr ég hv. þingmann: Hvar hafa sinnaskiptin orðið hjá sjálfstæðismönnum og hvers vegna er ástæða til þess núna, að þeirra mati, að rjúfa það samkomulag sem gert var í góðri trú?