141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:46]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þingmaðurinn er svolítið hávær, ég heyri ágætlega þó að ég sé farin að heyra verr en mér finnst hún tala fullhátt fyrir mína heyrn. Það er óþarfi að ræða þetta af svo mikill reiði.

Hvað lá til grundvallar störfum samninganefndarinnar? Það var langtímanýtingarsamningur og talað var um 20–40 ár. Það var talað um þjóðareign á auðlindinni, að virða samfélagsleg sjónarmið og að við hliðina á nýtingarsamningunum væri annað kerfi sem samanstæði af hinum svokölluðu pottum. Um þetta voru allir sammála eða langflestir, þar á meðal fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem leggur á það ríka áherslu í bókun sinni að þessum meginsjónarmiðum skuli fylgt og allt annað hljóti að teljast rof á samkomulagi sem gert var í góðri trú. Hann leggur áherslu á að þessir langtímasamningar séu líklegri til að skila þeim árangri að unnt verði marka sjávarútveginum öruggt rekstrarumhverfi til langs tíma. Hér er ekki verið að snúa út úr nokkrum sköpuðum hlut, (Forseti hringir.) hér er vitnað orðrétt í bókun þingmannsins. Hins vegar hafa útúrsnúningarnir og afvegaleiðing (Forseti hringir.) átt sér stað í umræðunni síðan meðal annars af hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.