141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[19:37]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður ræddi afleiðingar þess að böndum var komið á veiðar hér við land fyrir um það bil þremur áratugum og telur að það hafi haft meiri áhrif á stöðu byggðanna í landinu en sjálft kvótakerfið.

Nú var hv. þingmaður bæjarstjóri á Ísafirði á árunum upp úr 1990, um það bil áratug eftir að kvótakerfinu var komið á. Um það leyti fóru aflaheimildirnar að streyma úr byggðarlaginu, eftir að frjálsa framsalið var sett á. Þá gerðist það að aflahæstu skip svæðisins, þar á meðal Guðbjörgin, voru seld útgerðarfyrirtæki norður í landi. Þótt fullyrt hafi verið á þeim tíma að Guggan yrði alltaf gul og alltaf gerð út frá Ísafirði fór það svo að útgerðarfyrirtækið norður í landi tók það skip, seldi það og Guðbjörgin var ekki gerð út frá Ísafirði heldur hurfu aflaheimildirnar þar með allar úr byggðarlaginu.

Hv. þingmaður var mjög nálægur öllum þeim atburðum verandi bæjarstjóri á Ísafirði. Þarna varð mjög mikil röskun því á fáeinum árum hurfu 900–1.200 störf vegna atburðanna. Ég vil spyrja hv. þingmann í ljósi þeirra skýringa sem hann gaf áðan: Úr því að það var ekki kvótakerfið sem olli því sem þarna gerðist, hvað gerðist þá?