141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[19:44]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir ágætisræðu. Hann dvaldi aðeins við I. kaflann og stafliðina þar og þar erum við með yfirlýsingu um að fiskveiðistjórnin skuli vera sjálfbær. Mér heyrðist hv. þingmaður vera nokkuð sammála því. Við erum þá væntanlega sammála um að við þurfum að hafa sem mest jafnvægi á milli þriggja stoða, efnahagslegra, umhverfislegra og félagslegra og ég er sammála hv. þingmanni um að ekki er hægt að kenna kvótakerfinu algerlega um þá byggðaröskun sem hefur orðið. Það er auðvitað líka alveg rétt að þetta voru kannski nokkuð rökrétt viðbrögð við þeirri stöðu sem var uppi á þeim tíma.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé algerlega ósammála mér um að þetta kerfi hafi a.m.k. haft það í för með sér að það varð slagsíða á félagslega þættinum. Ef hann er að hluta til sammála því, finnst honum þá ekki sanngjarnt að greinin lagi og jafni einhvern veginn þá slagsíðu? Að öðrum kosti get ég ekki séð að þetta uppfylli neina kröfu um að teljast sjálfbærar veiðar sem eru þó í rauninni 1. gr. frumvarpsins. Mig langar að heyra hvort hann hafi einhverjar hugmyndir um hvernig sjávarútvegurinn getur lagt sitt af mörkum til byggðanna ef það er ekki gert eins og nefnt er í frumvarpinu?