141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[19:46]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég tel að sjávarútvegurinn hafi alla tíð, geri og muni gera, leggja til byggðanna í landinu. Það er mín innsta sannfæring. Ég vil nefna það hér af því að hv. þingmaður spyr hvað sjávarútvegurinn hafi gert og minni á að frá því að hið svokallaða kvótakerfi var sett á er búið að gera breytingar á því kerfi, ekki 10 eða 20 heldur hundruð breytinga sem gerðar hafa verið í þeim tilgangi að reyna að sætta sjónarmið og bæta upp „skaða“ sem orðið hefur af einhverjum ástæðum og færa vinnu eða verðmæti á milli byggðarlaga í landinu. Þetta hefur allt verið gert á pólitískum forsendum.

Síðan kerfið var sett á eru liðnir um þrír áratugir. Enn erum við að þrátta um þetta. Enn koma fram stjórnmálamenn sem segja: Ég get leyst þetta manna best. Þó höfum við í þrjá áratugi ástundað það verklag að reyna að breyta kerfinu sýknt og heilagt til að mæta alls konar sjónarmiðum.

Ég veit ekki hvort hv. þingmaður hefur tekið eftir því í umræðunum í dag en maður hefur tekið eftir ákveðnum kjördæmaáherslum, sérstaklega hjá tveimur hv. þingmönnum sem koma úr Norðvesturkjördæmi, hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur og hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur. Þær berjast fyrir tiltölulega einslitum hagsmunum. Er það til að veita öðrum íbúum annars staðar á landinu einhver gæði? Ég segi nei. Umræðan um þetta hefur oft verið lituð þessum þröngu hagsmunum og ég sé engan mun á umræðunni í dag.