141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[19:49]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni málefnalegt andsvar. Ég tel að þetta séu skoðanaskipti sem þurfa að eiga sér stað um atvinnugreinina sjávarútveg vegna þess að greinin snýst um miklu meira en að róa bara út á fjörð, draga upp eina ýsu og fara svo heim og snæða hana með kartöflum og smjöri. Sjávarútvegur er orðinn miklu meira dæmi en svo, en umræðan snýst oft og tíðum eingöngu um það hverjir geti farið og sótt fisk í sjó.

Ég er þeirrar skoðunar og sannfærður um að við eigum að gera sjávarútveginum kleift að leggja meira til byggðanna, þjóðfélagsins en hann gerir í dag. Það gerum við með því að tryggja honum starfsumhverfi sem hentar þessari atvinnugrein eins og hún er víðast skilgreind í dag, þ.e. veiðar, vinnsla og markaðssetning. Við sjáum það á öllum teiknum sem við höfum á lofti í dag að markaðssetning íslenskra sjávarafurða er að lenda í mjög erfiðum slag. Á sama tíma erum við, eðlilega, að reyna að fá út úr greininni sem mest í ríkissjóð, en ég tel að þar með séum við að bíta í skottið á okkur að sumu leyti.

Ég minni hins vegar á í umræðunni að það er ekkert nýtt að sjávarútvegsfyrirtæki leggi upp laupana. Það þurfti ekkert takmarkaða sókn í fiskstofna til þess. Það voru bara mismunandi góð rekstrarskilyrði o.s.frv. Þetta verður eilíft vandamál. Mér finnst umræðan oft og tíðum mjög bundin þessari einu tilteknu atvinnugrein í stað þess að við horfum yfir allt heila atvinnulífið. Við gerum ekki endilega mat úr því þó svo að eitthvert iðnfyrirtæki fari á höfuðið við gjaldþrot eða ákveði jafnvel að flytja starfsstöðvar sínar til annars lands. Það er aldrei umræða um það. Umræðunni er jafnan beint að sjávarútveginum og oft ómaklega í mínum huga þó að ég sé alls ekki að væna hv. þingmann um það, alls ekki. Hann hefur fullan skilning á því umræðuefni og viðfangsefni sem hér um ræðir.