141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[20:08]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég kannast við þær. Spurningin er þessi: Á engu að breyta? Það er alveg rétt sem hv. þingmaður benti á að það er skoðun þess sem hér stendur að ýmis atriði í núverandi kerfi séu vel þess virði að skoða hvort við getum ekki náð betri árangri.

Það sem ég staðnæmist helst við snýr að byggðakvótakerfinu. Af hverju geri ég það? Ég er þeirrar skoðunar að sú ákvörðun vinstri stjórnarinnar 1990, stjórnar Framsóknarflokks, Alþýðubandalags og Alþýðuflokks, um að heimila framsal hafi verið rétt og að kvótakerfi án framsals sé, eins og ágætur hv. þingmaður sagði eitt sinn, flugvél án vængja. Ef menn ætla að hafa kvótakerfi á annað borð eiga þeir að hafa framsal. Ég er þeirrar skoðunar. En ég held að það hvernig við höfum stýrt byggðakvótakerfinu og hvernig það hefur þróast þurfi endurskoðunar við vegna þess að það grípur ekki utan um og tekur ekki á meiri háttar áföllum. Það er búið að dreifa þessu um of þannig að geta Alþingis eða kerfisins, svo að maður noti kannski dálítið vonda íslensku, til að bregðast við meiri háttar byggðaröskun er lítil. Það þekki ég mjög vel. Ég held að þar brenni mest á okkur að reyna að breyta kerfinu þannig að það nái betur tilgangi sínum, að hamla gegn óæskilegri og hraðri byggðaþróun.

Hvað varðar fjárhagslegan aðskilnað í veiðum og vinnslu þá er ég ekki hlynntur því. Menn verða að skilja að í sjávarútvegi hangir allt á samhenginu frá veiðum, í gegnum vinnsluna og til markaðssetningar og sölu. Ég held að það sé ekki skynsamlegt að fara að búa til fjárhagslegan aðskilnað á veiðum og vinnslu. Það er miklu líklegra og eðlilegra að sama fyrirtæki nái utan um alla virðiskeðjuna, frá veiðum til markaðssetningar og sölu. Ég er ekki hlynntur því að hafa (Forseti hringir.) fjárhagslegan aðskilnað á veiðum og vinnslu.