141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[20:11]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir svör hans. Hann kom hins vegar ekki inn á það hvort hann og flokkur hans tækju undir þá kröfu eða þær ábendingar sem hafa komið frá þeim samtökum sem ég nefndi, um að ekki ríki raunverulegt samkeppnisumhverfi í greininni, og þær ályktanir sem þeir hafa komið með varðandi að allur óunninn afli sem landað er verði seldur á markað eða markaðsverð á innlendum fiskmörkuðum verði látið ráða í beinum viðskiptum.

Síðan hafa menn líka talað fyrir fjárhagslegum aðskilnaði en að ekkert komi í veg fyrir, þó að fjárhagslegur aðskilnaður sé á milli vinnslu og veiða, að sömu eigendurnir séu þar að baki og það sé þá hægt að stýra virðiskeðjunni, eins og menn hafa bent á. Ég mundi halda að í ljósi þeirra laga sem voru sett varðandi raforkulögin, aðskilnað þar, að menn hefðu náð að stýra ágætlega virðiskeðjunni þrátt fyrir bókhaldslegan aðskilnað.

Ég ítreka því spurningu mína hvað þetta varðar: Má ég skilja það á máli hv. þingmanns að hann telji rétt að breyta forkaupsréttarákvæði sveitarfélaga í núgildandi lögum um fiskveiðistjórn? Það má nefna sem dæmi að sveitarfélag Vestmannaeyja höfðar nú mál á grundvelli þess að láta einmitt á það reyna hver staða sveitarfélagsins er því að þar eru miklar aflaheimildir sem er búið að selja úr byggðarlaginu og það var jafnvel, eins og bent var á, búið að selja hlutafélagið áður en skipin fóru þannig að ákvæðið virðist vera handónýtt varðandi þennan forkaupsrétt.

Síðan líka, eins og þingmaðurinn kom inn á, þótt ég viti að þetta sé viðamikið varðandi kosti framsals: Telur þingmaðurinn rétt að einhverju leyti að bregðast við þeirri staðreynd að reglan virðist almennt hafa verið sú að peningarnir hafi frekar streymt úr greininni og síður til fjárfestingar (Forseti hringir.) í greininni á grundvelli þessa framsals?