141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Nú þegar líður að lokum þessa kjörtímabils er við hæfi að rifja aðeins upp fyrstu stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra sem hann flutti þinginu á vordögum 2009. Ég ætla að vitna í þessa ræðu, með leyfi forseta:

„Á þessum tímum hlýtur það að vera krafa þjóðarinnar að við reynum að vinna saman sem ein heild og virða skoðanir hver annars […] Gamaldags skotgrafarhernaður sem of lengi hefur einkennt íslensk stjórnmál á ekki við á einum örlagaríkustu tímum í sögu þjóðarinnar […] Ríkisstjórnin vill leita víðtæks samráðs um sem flest mál, bæði innan þings og utan. Við lýsum okkur reiðubúin til þess að móta stöðugleikasáttmála með aðilum vinnumarkaðarins […] Við þurfum að ná sátt um nýtt fiskveiðistjórnarkerfi og við köllum eftir breiðri samstöðu um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu […] Auka þarf traust og trú á íslenskt efnahagslíf, örva innlendar fjárfestingar í atvinnulífinu, stuðla að beinum erlendum fjárfestingum […] Ríkisstjórnin mun því með markvissum aðgerðum draga úr atvinnuleysi, útrýma langtímaatvinnuleysi og skapa traustari grundvöll fyrir íslenskt atvinnulíf til framtíðar […] Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að mótuð verði heildstæð atvinnustefna […] Það er staðfastur ásetningur ríkisstjórnarinnar að fylgjast vel með þróun þessara mála hjá heimilum landsins og bregðast við […] Við tökumst á við kjaraskerðinguna og eignarýrnunina með því að efla atvinnulífið og auka þannig hagvöxt og kaupmátt á ný […] Sæki Íslendingar um aðild að Evrópusambandinu og hefji formlegar aðildarviðræður […] mundu jákvæð áhrif koma fram strax þegar ósk um aðildarviðræður lægi fyrir og búast má við að þau jákvæðu áhrif fari vaxandi eftir því sem umsóknarferlið gengur lengra […] Á því þarf atvinnulífið nú að halda og slík umsókn mun jafnframt endurvekja traust alþjóðasamfélagsins og erlendra fjárfesta á Íslandi.“

Virðulegi forseti. Þetta er enginn brandari sem ég er að lesa en hljómar sem slíkur eftir fjögur árangurslaus ár hæstv. forsætisráðherra með þessa ríkisstjórn og þessa ríkisstjórnarflokka. Þetta er alvarlegt mál. Við horfum á algert uppnám hér í þinginu. Við horfum upp á forgangsröðun sem er fortakslaus, á engan rétt á sér, forgangsröðun sem er ekki í þágu neinna þeirra málefna sem hér var lofað að fara yfir, vinnubrögð sem alls ekki hafa verið viðhöfð á tímabilinu.

Svo mörg voru þau orð og dæmi nú hver fyrir sig um árangurinn.