141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt nú þegar fáar vikur eru fram að kosningum að stjórnmálaflokkar eigi samtal við þjóðina og kjósendur alla og lýsi því yfir hvernig þeir vilja bæta kjör alls almennings. Stjórnmál eiga fyrst og síðast að snúast um það að bæta hag almennings og það hljótum við að reyna að gera af fremsta megni. Við veljum þar vissulega margar og ólíkar leiðir en sá sem hér stendur telur að gjaldmiðillinn skipti þar mestu máli og reyndar vaxtastigið.

Sumir stjórnmálaflokkar hafa nefnt að taka eigi á verðtryggingunni. Það er gott og vel, vitaskuld má skoða vægi hennar í hagkerfinu. En það verður ekki þannig að verðtryggingin verði tekin af án afleiðinga. Verðtryggingin er einu sinni hækja lélegs gjaldmiðils og það eitt að taka verðtrygginguna af í heilu lagi mun einfaldlega hækka vaxtastigið í landinu. Eru það þá þau skilaboð sem við viljum færa almenningi í þessu landi að við viljum hækka vextina? Er ekki nóg komið af háum vöxtum? Hátt vaxtastig stendur íslensku samfélagi fyrir þrifum. Hátt vaxtastig stendur fyrirtækjum fyrir þrifum og öllum almenningi. Ég gæti meira að segja farið út um sveitir landsins. Ég held að stærsta hagsmunamál allra bænda í landinu sé að fá lágt vaxtastig sem er samkeppnisfært við helstu nágrannaþjóðir okkar.

Við verðum sem stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar að eiga skýrt og opinskátt samtal við þjóðina og segja henni hvaða kostir eru í boði. Viljum við hafa krónuna áfram inn í ókomna framtíð með háu vaxtastigi eða viljum við skoða aðrar leiðir? Hvaða leiðir þá? Stjórnmálaflokkar skulda almenningi svör við þessum stóru spurningum. Þetta eru stærstu spurningarnar.