141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Í gær var birt álit Feneyjanefndarinnar um nýja frumvarpið til stjórnarskipunarlaga og eru þar reifaðar ýmsar gagnlegar ábendingar. Nokkrar þeirra hafa þegar komið fram í umsagnarferlinu á undanförnum mánuðum og meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur þegar tekið tillit til sumra í þeim 40 breytingartillögum sem nefndin hefur lagt fram við frumvarpið.

Feneyjanefndin fagnar meðal annars ákvæðum um jafnt vægi atkvæða, þeirri áherslu á aukin mannréttindi sem kemur fram í frumvarpinu en gerir ákveðnar athugasemdir við útfærslur sem mikilvægt er að rýna vel, ekki síst þær sem lúta að nánari breytingum með tilliti til réttaráhrifa í tilteknum köflum. Veigamestu athugasemdir nefndarinnar lúta hins vegar að köflunum um stjórnskipan ríkisins, samspili hinna þriggja greina ríkisvaldsins og er rétt að meta vandlega að mínu mati hvort ekki sé rétt að áfangaskipta verkinu með þeim hætti að þeir kaflar verði teknir til nánari endurskoðunar og afgreiddir á næsta þingi. Það er hins vegar ekkert tilefni til annars en að klára vinnuna við þá kafla sem miða að því að tryggja betur almannahagsmuni og auka rétt almennings til að hafa meiri áhrif á mótun þessa samfélags, enda er það mikilvægasti lærdómurinn sem við getum dregið af hruninu mikla þar sem traust almennings á stjórnkerfi landsins hrundi á einni nóttu.

Það er á þeim grunni sem krafan um aukið beint lýðræði er reist og það er mikill prófsteinn á Alþingi hvort það hefur styrk og kraft til að hlusta eftir og taka mark á þeirri sanngjörnu kröfu fólksins í landinu. Ekkert sem við gerum hér á komandi vikum mun gera meira til að endurreisa virðingu þessarar mikilvægu stofnunar en að samþykkja breytingar á stjórnarskránni sem tryggja aukin mannréttindi landsmanna, þjóðareign auðlinda, jöfnun atkvæðavægis og virkan rétt almennings til að krefjast þjóðaratkvæðis um mikilvæg málefni.