141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Verðtryggingin hefur verið talsvert til umræðu undanfarna daga. Ég rakst á athyglisverða grein á netmiðlinum Pressunni eftir Vilhjálm Birgisson, formann Verkalýðsfélags Akraness, þar sem hann fer yfir sýnidæmi sem hann hefur tekið á fundum sem hann hefur mætt á sem framsögumaður. Eins og kunnugt er hefur Verkalýðsfélag Akraness höfðað mál gegn íslenska ríkinu vegna verðtryggingarinnar og formaður félagsins hefur fjallað mikið um þessi lán.

Með leyfi frú forseta ætla ég að vitna í þessa grein þar sem Vilhjálmur Birgisson tekur dæmi af láni upp á 22 milljónir til 40 ára, annars vegar með 6,75% breytilegum vöxtum og hins vegar verðtryggt lán með 3,75% breytilegum vöxtum. Þegar búið er að greiða af láninu með verðtryggðu vöxtunum er búið að greiða um 149 millj. kr. en af óverðtryggða láninu eru þetta 60 millj. kr. Lokaafborgun af óverðtryggða láninu er 118 þús. kr. en af verðtryggða láninu 755 þús. kr.

Staðreyndin er sú að flestir þeir sem taka ný húsnæðislán í dag taka óverðtryggð húsnæðislán. Hins vegar eru margir með verðtryggð lán í dag og eru að velta fyrir sér stöðu sinni og hvað hægt sé að gera.

Við höfum kallað eftir því að nú setjist menn niður þvert á flokka og leysi vanda þeirra sem eru með verðtryggðar skuldir. Þess vegna er hlægilegt þegar menn tala um að Evrópusambandsaðild sé lausnin á þessu. Í dag er stærstur hlutinn af húsnæðislánunum óverðtryggður. Það var hlægilegt að fylgjast með nýjum formanni Samfylkingarinnar, Árna Páli Árnasyni, þegar hann var spurður um þetta á DV síðast í gær. Það sem hann ætlar að gera gagnvart þessu er að gera þjóðinni kleift að ganga (Forseti hringir.) í ESB. Þetta stenst enga skoðun og það er ótrúlegt að sá stóri flokkur sem Samfylkingin einu sinni var og skilgreinir sig sem jafnaðarmannaflokk Íslands ætli að skila auðu í þessu mikilvæga máli (Forseti hringir.) í aðdraganda kosninganna.