141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson velti fyrir sér hver væri meiningin á bak við það þegar sagt væri að ESB-umsóknin væri komin í var. Ég held að ég hafi alveg svar við því. ESB-umsóknin lenti í haugasjó og skítabrælu og kafteinarnir ákváðu þess vegna að sigla upp undir og fara í var. Þeir gátu ekki haldið áfram, það er ástæðan fyrir því að svo er komið fyrir þessari umsókn.

Virðulegi forseti. Hér hefur verið, sem oft áður, kallað eftir aðgerðum gagnvart skuldugum heimilum. Þetta höfum við gert, ýmsir þingmenn, meira og minna allt þetta kjörtímabil. Við höfum hvað eftir annað boðið það fram, m.a. fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, að við reyndum að mynda þverpólitíska samstöðu um tilteknar aðgerðir sem annars vegar sneru að gengislánadómunum og hins vegar hinum mikla vanda sem fólk sem tók verðtryggð lán, sérstaklega á árunum 2005–2009, á við að stríða.

Það hefur ekkert verið gert með þessar óskir. Núna liggur fyrir í mörgum yfirlýsingum hæstvirtra ráðherra sem þeir hafa gefið á undanförnum dögum og vikum að það stendur ekkert meira til á þessu kjörtímabili. Þetta er með öðrum orðum algjörlega fullreynt. Við verðum þess vegna, því miður, að horfast í augu við það að við verðum að bíða nýs kjörtímabils, nýs pólitísks meiri hluta sem hefur í raun og veru áhuga á því að taka á þessum málum. Það dugar ekki bara að vísa til vaxtabóta síðustu ára, það dugar ekki að vísa til þess að árangur hafi náðst með lækkunum skulda þegar við blasir að sú skuldalækkun hefur einkanlega átt sér stað vegna þess að gengislánin voru dæmd ólögleg.

Nú verðum við að bíða kosninga, við verðum að bíða nýs pólitísks meiri hluta til að taka raunverulega á þessum málum. Þetta er orðið fullreynt, núverandi ríkisstjórn ætlar sér ekkert (Forseti hringir.) frekar í þessum efnum.