141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla hvorki að tala um stjórnarskrána né Evrópusambandið þó að hvort tveggja sé verðugt. Mig langar á þessum tíma að ræða við þingmenn um sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Við höfum setið hér í fjögur ár og í september 2010 samþykktum við ályktun um að efla sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þess vegna langar mig að velta upp þeirri hugmynd hvort þingmenn geti ekki á síðustu metrum þessa kjörtímabils stuðlað að sjálfstæði þingsins með því að leggja fram breytingartillögu þess efnis að Alþingi fari sjálft með fjárveitingavaldið í eigin málum. Þá þyrfti Alþingi ekki að sækja til framkvæmdarvaldsins um fjárveitingar til Alþingis og fá höfnun við þeirri beiðni sem það leggur fram hjá þingmönnum í fjárlaganefnd eða ríkisstjórninni í heild sinni.

Virðulegur forseti. Ég held að með því að Alþingi sjálft hefði fjárveitingavald í eigin málum stæðum við ögn framar í sjálfstæði þingsins en við gerum í dag. Ég legg þessa hugmynd mína fyrir alla þingflokka og bið um að þeir velti fyrir sér hvort það gæti ekki verið sameiginlegt verkefni okkar nú á lokadögum þingsins að sjá til þess að við efldum sjálfstæði Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu með því að færa Alþingi fjárveitingavaldið í sínum eigin málum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)