141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

lengd þingfundar.

[15:40]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég fagna því að það á að funda fram á kvöld um stjórnarskrána. Ég hef verið eindreginn talsmaður þess að það verði mikið talað um málið, fjallað um það og fundað þangað til næst að klára það á þessu þingi. Yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar hefur greitt um það atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu að hann vilji fá þessa stjórnarskrá og það er einfaldlega skylda þingsins að klára málið.

Mér þótti svolítið sárt að heyra áðan hv. þm. Skúla Helgason tala málið niður með þeim hætti að það ætti að búta það í sundur og taka bara hluta af því í gegn. Ég vona að það sé ekki skoðun allra í Samfylkingunni en ég fagna því að hér verður fundur í kvöld. Þetta er fyrsta skrefið í þá átt að funda vonandi á föstudag og laugardag, ef með þarf. Það brýnasta er að málið verði klárað í 2. umr. sem fyrst og því fundað á kvöldin og næturnar og um helgar ef með þarf. (Gripið fram í.)