141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

lengd þingfundar.

[15:41]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns hvetja til þess að hér verði tekin upp einhver regla um það hvenær atkvæðagreiðslur, eins og sú sem við erum nú í, fara fram, hvort þær eru á undan eða eftir sérstökum umræðum eins og hér er, en það hefur verið nokkurt hringl á því eins og við þingmenn þekkjum. Það yrði til þess að auðvelda þingstörfin.

Vegna orða hv. þm. Illuga Gunnarssonar tek ég fram að stuðningsmenn frumvarps um nýja stjórnarskrá hafa tekið mjög virkan þátt í umræðunni sem ekki hefur staðið lengi að þessu sinni. Við höfum eytt hér tveimur dagpörtum í 2. umr. um frumvarpið. Enn eru mjög margir á mælendaskrá. Þegar við skildum við umræðuna fyrir 13 dögum var hún mjög góð. Hún var efnismikil og menn fóru nákvæmlega í mjög mörg ágreiningsatriði og viðruðu skoðanir sínar. Það er mikilvægt að þetta mál komist sem fyrst til nefndar eftir 2. umr. og ég styð því að hér verði kvöldfundur (Forseti hringir.) og hvet alla þingmenn til að taka virkan þátt í þessari umræðu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)