141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

lengd þingfundar.

[15:42]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hélt að okkur í þinginu hefði lærst að það er tilgangslítið að setja á langa þingfundi og ræða (Gripið fram í.) mál fyrr en að menn vita hvað þeir eru að tala um. Ég man reyndar þá tíð að hér voru settir á mjög langir þingfundir í Icesave-málinu. Þá var ekki mikið um stjórnarliða í salnum. Þeir fundir voru mjög langir og skiluðu vissulega miklum árangri fyrir þjóðina og það getur vel verið að stjórnarliðar séu að hvetja til þess. Aðalatriðið í þessu máli hlýtur samt að vera það, ef við ætlum að fá einhvern gáfulegan, skynsamlegan botn í það, að við tökum það til umræðu sem við ætlum að reyna að ljúka.

Nú sjá allir að það er ekki hægt að ljúka þessu máli. Það breytist dag frá degi. Stjórnarliðar segjast vera búnir að breyta því eftir að nefndir skiluðu álitum. Aðalatriðið er að við vitum hvernig við ætlum að leysa þetta mál og ganga frá því (Forseti hringir.) á þessu þingi og þá gætum við tekið einhverja gáfulega umræðu. Auðvitað getum við talað og talað um stjórnarskrána. Hún batnar ekki við það og (Forseti hringir.) verkefnið klárast ekki hraðar við það (Gripið fram í.) þannig að ég mun segja nei við þessu (Forseti hringir.) þangað til það verður komin einhver skynsemi í þetta verklag, frú forseti.