141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

lengd þingfundar.

[15:54]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég botna hvorki upp né niður í þessari umræðu en mun ekki fallast á að haldinn verði kvöldfundur. Hér var það gagnrýnt að við sem sitjum í minni hluta í þinginu séum að gagnrýna form þessa máls. Ég veit ekki betur en að hér hafi verið gerð ítarleg rannsóknarskýrsla á vegum Alþingis þar sem meginniðurstaðan hafi verið sú að skortur á formfestu hefði valdið því að stjórnvöld hefðu (Gripið fram í.) villst í ýmsum atriðum út af sporinu.

Ég veit ekki betur en að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hafi, ásamt ýmsum félögum sínum hér inni, ákært fyrrverandi forsætisráðherra fyrir meðal annars það að halda sig ekki í forminu þannig að ég tel að það sé full ástæða fyrir okkur að halda því til haga með hvaða hætti menn tala hér og hvaða vinnubrögð menn ástunda, þeir sem eru heilagir annan daginn og alls ekki heilagir hinn daginn gagnvart því (Forseti hringir.) að halda sig ekki í forminu. (Gripið fram í.) Skammastu þín, Álfheiður. (Gripið fram í: Já.)