141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

lengd þingfundar.

[15:57]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem ég ætla að nefna. Það kom fram í þessari umræðu að þingmenn hefðu ekkert betra að gera en að vera hér til að ræða stjórnarskrána. Ég ætla að fá að nefna nokkur mál sem ég tel að væri alveg ástæða til að ræða í þinginu frekar en akkúrat þetta ef við berum þau saman, sérstaklega út frá því að mjög margar ábendingar hafa komið fram sem væri ástæða til að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd mundi setjast yfir varðandi þetta frumvarp.

Það gæti verið frádráttur á tekjuskatti vegna afborgana af fasteignalánum einstaklinga, athugun á áhrifum útlánavaxta lífeyrissjóðanna á stýrivexti, þak á hækkun verðtryggingar og lækkun vaxta, afnám stimpilgjalda vegna kaupa á íbúðarhúsnæði einstaklings, skattafsláttur vegna húsnæðissparnaðar og tímabundin úrlausn vegna gengistryggðra lána. Þetta eru bara nokkur af þeim málum sem þingflokkur framsóknarmanna hefur lagt fram á þessu þingi.

Ég ætla líka að fá að nefna lyklafrumvarpið sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir lagði fram og mál þingmanns Samfylkingarinnar, Magnúsar Norðdahls, (Gripið fram í.) um hvernig eigi að leiðrétta (Forseti hringir.) að eignir hafi verið teknar af fólki á grundvelli ólögmætra lána. Því til viðbótar (Forseti hringir.) er reynsla okkar í stjórnarandstöðunni svolítið bitur yfir því að umræða í þinginu hafi einhver áhrif (Forseti hringir.) á skoðanir stjórnarliða, samanber Icesave.