141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

lengd þingfundar.

[16:00]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég kem hérna aftur upp og ætla þá að reyna að tala bæði hægt og skýrt svo karlkyns þingmenn Samfylkingarinnar skilji hvað ég er að fara fram á. Ég talaði fyrir því og tók undir orð okkar framsóknarmanna um að menn setjist yfir það hvernig þeir ætla að klára þetta mál, stjórnarskrána, ná sátt um þau atriði sem hægt er að ná sátt um og setjast yfir hin atriðin og taka eftir það umræðu í þingsal í stað þess að stefna í að ræða hér mjög yfirgripsmikið mál og mikilvægt undirbúningslaust. Það er nauðsynlegt að taka þá umræðu en stefnt er að því að gera það án þess að hafa hugmynd um hvernig á að ná til lands í því máli. Tíminn er ekki nægur og álitaefnin í gangi eru þess efnis að öllum er ljóst að það verður ekki hægt þó að ég finni fyrir verulegum titringi meðal þeirra sem vilja ganga hraðast og lengst í þeim efnum í salnum í dag.

Það er það sem ég sagði og (Forseti hringir.) ég vona að ég hafi talað nógu hægt og skýrt svo hv. þingmenn hafi skilið mín orð.