141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

fundur í atvinnuveganefnd um stjórn fiskveiða.

[16:05]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég átti þess ekki kost að sitja þennan fund. Til hans var boðað með skömmum fyrirvara. Nefndin á fundartíma í fyrramálið og ég taldi víst að þetta mál yrði rætt þá en ég hef fengið upplýsingar um með hvaða hætti umræðan var og hvaða tillögur meiri hlutinn lagði þar fram og knúði í gegn með ofbeldi. Ég tel þetta mjög varhugavert, almennt séð, ekki síst þegar við fjöllum um stór og mikil mál, að umsagnartími sé mjög knappur, innan við tvær vikur, tíu dagar jafnvel, og að því sé líka hafnað að fá sérfræðinga að vinnu sem hingað til hefur þó ævinlega verið gert. Ég veit ekki hvert menn eru komnir þegar þeir hafna því þegar við erum að fjalla um einhverja mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar. (Gripið fram í.) Það að leggja það til að hér verði nefndarfundir með gestum á kvöldin í næstu viku áður en að umsögnum er skilað (Forseti hringir.) er í hæsta máli sérkennilegt. Það verður þá að minnsta kosti til þess að stjórnarskráin verður ekki rædd á þingfundum á meðan á þeim nefndarfundum stendur.