141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

fundur í atvinnuveganefnd um stjórn fiskveiða.

[16:17]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Þessi margumræddi fundur í atvinnuveganefnd í hádeginu var ekki til sóma og þar á meðal sum þau orð sem sá er hér stendur lét falla. Þetta var mikill hitafundur en það voru fyllilega málefnalegar ástæður fyrir því. Hér er um að ræða algjörlega nýja auðlindastefnu. Það er verið að gjörbreyta auðlindanýtingu og úthlutun úr auðlindum til allrar framtíðar á Íslandi. Verið er að afhenda dýrmætustu auðlind þjóðarinnar 20 ár fram í tímann með samningum við nýtingarhafa. Magma-málið sem við rifumst svo mikið um fyrir ekki svo löngu síðan, vegna nákvæmlega þessa, er smámál í samanburði við þetta.

Frú forseti. Ef þetta frumvarp verður að lögum er um að ræða mesta auðlindarán Íslandssögunnar. Þetta mál má ekki fara í gegn. Það þarfnast verulega ítarlegrar skoðunar því það mun hafa áhrif á efnahagslíf á Íslandi (Forseti hringir.) um alla framtíð ef það verður að lögum (Forseti hringir.) og það má ekki verða að lögum.