141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

fundur í atvinnuveganefnd um stjórn fiskveiða.

[16:27]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er um margt áhugavert. Hér hefur því verið haldið fram af hálfu ákveðinna hv. þingmanna stjórnarliðsins að sú beiðni að faglegt álit yrði unnið með sama hætti og var gert fyrir breytingar sem voru fyrirhugaðar á fiskveiðistjórnarkerfinu síðastliðið vor sé dæmi um að þæfa eigi málið. Það sé tafatækni og verið sé að reyna að koma í veg fyrir lýðræðislegar umræður með því að biðja um að heildstætt og faglegt álit á áhrifum þessa frumvarps yrði unnið.

Virðulegi forseti. Þetta er einhver hörmulegasti áfellisdómur sem ég hef heyrt um einn málstað í langa tíð. Hvernig má það vera, virðulegi forseti, að beiðni hv. þingmanna Jóns Gunnarssonar og Einars K. Guðfinnssonar um að faglegt og heildstætt mat yrði unnið, eins og var gert (Forseti hringir.) við frumvarp sem var lagt fram síðastliðið vor og gagnaðist svo vel, sé dæmi um þæfing og að verið sé að koma í veg fyrir lýðræðislega umræðu? Þetta er algjörlega furðuleg umræða.