141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

nauðasamningar þrotabúa föllnu bankanna og útgreiðslur gjaldeyris.

[16:29]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mál sem við ættum í rauninni að vera með í algjörum forgangi vegna þess að það er ekki stórmál, það er risamál. Það mál snýr að lífskjörum almennings í nútíð og framtíð. Ég og fleiri höfðum frumkvæði að því, þ.e. sérstaklega hv. stjórnarandstæðingar, að koma í veg fyrir stórslys fyrir áramót, en sumir stjórnarliðar tóku undir með okkur. Til stóð að ganga frá neyðarsamningum við þrotabú gömlu bankanna í desember á síðasta ári án þess að vera búin að gaumgæfa málið, skoða það.

Við erum í mjög viðkvæmri stöðu og er ekki langt liðið, reyndar bara nokkrir dagar, frá því að Friðrik Jónsson, hagfræðingur Alþjóðabankans, kom með viðvörunarorð fyrir alla þjóðina þar sem hann sagði að fyrirsjáanlegt væri, hann notaði orðið óhjákvæmilegt, að hér yrði annað bankahrun vegna þess að við værum ekki búin að vinna úr þessum málum, ekki búin að vinna úr gjaldeyrishöftunum eða gera þá aðlögun sem nauðsynleg er.

Í örstuttu máli ætti það ekki að vera vandamál að vinna úr og gera samninga um þrotabú hjá einkafyrirtækjum en þar sem við erum í þeirri stöðu að við erum með gjaldeyrishöft og hér er gjaldeyrir af skornum skammti, er það nokkuð sem kemur allri þjóðinni við. Auðvitað snýr það ekki bara að þrotabúunum, það snýr að heildarstöðu þjóðarbúsins. Málið er mjög einfalt, að öllu óbreyttu ræður þjóðarbúið ekki við að greiða allar þessar erlendu skuldir. Ef gjaldeyririnn sem við eigum í gjaldeyrisvaraforðasjóði, en hann er fjármagnaður með lánsfé með ríkisábyrgð, rennur of hratt út mun höggið lenda á tveimur aðilum, annaðhvort þeim sem eiga kröfurnar eða þá á almenningi af fullum þunga.

Ég tel það algjört forgangsmál að við gerum allar þær ráðstafanir sem við getum til að koma í veg fyrir að höggið lendi á almenningi. Reyndar er þetta það mál sem við ættum núna að leggja alla okkar krafta í, með fullri virðingu fyrir þeim málum sem menn reyna að keyra í gegn á síðustu dögum þingsins, vegna þess að þrátt fyrir að okkur hafi tekist að afstýra slysinu fyrir áramót fer þetta mál ekki frá okkur.

Við horfum upp á að allar þær áætlanir sem hæstv. ríkisstjórn hafði varðandi afnám gjaldeyrishafta hafa ekki gengið eftir. Ef menn fletta upp í Google og kanna hvað sagt hefur verið um þessi mál finna þeir yfirlýsingar frá Seðlabankanum bæði frá árinu 2009 og byrjun árs 2010 um að við ætlum að aflétta gjaldeyrishöftunum mjög fljótlega. Það er alveg ljóst að þær forsendur sem stjórnvöld lögðu upp með hafa ekki gengið eftir, upplýsingarnar reyndust ekki réttar og margir komið hafa fram með varnaðarorð sem við þurfum að hlusta mjög vel á. Sem betur fer sýnist mér að Seðlabankinn og stjórnvöld hafi tekið mið af því og að við séum komin með réttari mynd af stöðunni.

Virðulegi forseti. Málið er þó ekki leyst og enn og aftur legg ég áherslu á að ef við vöndum okkur ekki kemur skellurinn af fullum þunga á almenning. Þess vegna lagði ég fyrir hæstv. ráðherra sjö spurningar sem eru þessar:

1. Hverjar eru helstu ástæður þess að stefna ríkisstjórnarinnar um afnám gjaldeyrishaftanna hefur ekki gengið eftir?

2. Hvað telur ráðherra að þjóðarbúið geti ráðið við mikla erlenda skuldabyrði?

3. Hver er staðan núna á erlendri skuldastöðu þjóðarinnar?

4. Hefur ráðherra látið kanna reynslu annarra þjóða af sambærilegum aðstæðum?

5. Telur ráðherra nauðsynlegt að afskrifa? Ef svarið er játandi, hversu mikið? (Forseti hringir.)

6. Hefur ráðherra áform um að fá aðila með alþjóðlega reynslu af svipuðum aðstæðum til ráðgjafar?

7. Hver er stefna ríkisstjórnarinnar varðandi afnám gjaldeyrishaftanna?