141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

nauðasamningar þrotabúa föllnu bankanna og útgreiðslur gjaldeyris.

[16:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hefja þessa umræðu í þingsal vegna þess að hún er alveg gríðarlega mikilvæg enda er staðan erfið og mjög mikilvægt að við öxlum sameiginlega ábyrgð á lausninni á þeim mikla vanda sem óheftur vöxtur íslenskra fjármálafyrirtækja og viðvarandi viðskiptahalli hér á landi hefur valdið.

Sú áætlun sem samþykkt var í stýrinefndum um losun fjármagnshafta og Seðlabankinn hefur unnið eftir hefur einkum miðað að því að losa um snjóhengjuna svokölluðu, þ.e. krónueignir erlendra aðila sem hafa verið fastar inni í hagkerfinu frá því að höftunum var komið á. Með útboðsleið Seðlabankans hefur þrátt fyrir allt tekist að fækka hinum svokölluðu kviku krónum um u.þ.b. 170 milljarða, eða niður í rúmlega 400 milljarða kr. Stefna ríkisstjórnarinnar er alveg skýr; við viljum losna við fjármagnshöftin eins fljótt og hægt er án þess að stefna fjármálastöðugleika eða hagsmunum fyrirtækja og heimila í hættu.

Stjórnvöld og Seðlabanki Íslands hafa verið algjörlega samstiga í því að ganga eins langt og lög og þjóðréttarlegar skuldbindingar leyfa í að verja íslenska hagsmuni. Af því leiðir að mun mikilvægara er núna að miða losun fjármagnshafta við verkfærin og árangur en ekki dagsetningar.

Þverpólitísk nefnd sérfræðinga sem skipuð var hér af öllum þingflokkum hefur verið að störfum, hún er t.d. nýkomin heim frá Washington þar sem hún átti í viðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Nefndin ritaði formönnum allra stjórnmálaflokka bréf nú í haust og er á svipuðum slóðum og er sammála hagsmunamati stjórnvalda og Seðlabankans að þessu leyti. Ég vona að einnig sé samstaða um það á Alþingi.

Meginástæðan fyrir því að ekki hefur verið hægt að stíga stærri og ákveðnari skref í losun fjármagnshafta er fyrst og fremst varúðarsjónarmið, þ.e. þróun á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hefur ekki verið jafnhagstæð og vonir stóðu til, auk þess sem eðlilegt þótti að stíga engin þau skref sem haft gætu ófyrirsjáanlegar afleiðingar þegar kæmi að uppgjöri á þrotabúum gömlu bankanna sem við stöndum nú frammi fyrir.

Verkefnið sem við okkur blasir er þríþætt: Það er gamla snjóhengjan, erlendar skuldbindingar Landsbanka Íslands og svo uppgjörið á þrotabúum gömlu bankanna. Myndin af því síðastnefnda hefur verið að skýrast á undanförnum mánuðum. Ég tel rétt að draga hana upp hér svo við höfum hana fyrir framan okkur. En í mjög grófum dráttum og með námunduðum tölum er staðan gagnvart þrotabúum bankanna þannig að eignir þeirra eru samtals um 2.500 milljarðar kr. Þar af eru um 240 milljarðar í eigin fé í bönkunum, innstæður og kröfur á íslenska aðila eru 220 milljarðar í krónum og jafnvirði um 500 milljarða kr. í erlendum gjaldeyri. Kröfur á erlenda aðila í erlendum gjaldeyri eru síðan á milli 1.500 og 1.600 milljarðar.

Þegar sú mynd er teiknuð upp blasir við að hin svokallaða snjóhengja, sem samanstendur af kviku krónunum, getur vaxið um rúmlega 200 milljarða á nýjan leik vegna uppgjörs búanna og orðið ríflega 600 milljarðar á ný, og þá er ekki þar inni eignarhlutur í bönkunum ef þeir losna.

Þetta er staðan og hún er mjög snúin. Það eru gríðarlegir hagsmunir undir að við vöndum vel til verka.

Ég hef haft um það forustu í fjármála- og efnahagsráðuneytinu að við tökum mjög þétt utan um þetta verkefni og hefur það verið algjört forgangsmál hjá okkur núna á undanförnum mánuðum. Stýrinefnd um losun fjármagnshafta sem í eiga sæti ráðherrar efnahags- og fjármála og bankamála, auk seðlabankastjóra og forstjóra Fjármálaeftirlitsins, hefur verið virkjuð á ný til að stýra uppfærslu áætlunarinnar. Núna fundar þessi stýrinefnd reglulega. Á vegum stýrinefndarinnar er síðan virk samráðsnefnd embættismanna og sérfræðinga sem heldur utan um alla þræði vinnunnar og skipar vinnuhópa utan um einstaka þætti.

Þá höfum við fengið verðmætar ábendingar og tillögur frá áðurnefndri þverpólitískri nefnd sérfræðinga sem þingmenn eiga líka sæti í.

Alþingi fær senn til umfjöllunar fyrstu skrefin sem stíga á og lúta að nauðsynlegum breytingum á lagarammanum um fjármagnshöftin sem víðtæk sátt næst vonandi um. Að öðru leyti felst vinnan þessa dagana ekki bara í nákvæmri kortlagningu stöðunnar, heldur einnig í mati og á öllum þeim ólíku verkfærum sem þurfa að vera til staðar til að stýra útflæðinu, einmitt eins og hv. þingmaður kom inn á, til að koma í veg fyrir að högg komi á heimili og fyrirtæki í landinu.

Síðan er líka eitt af stóru verkefnunum það að gert er líkan um líklegustu þróun út frá mismunandi forsendum. Það er risastórt verkefni.

Frú forseti. Ég vil að lokum taka það skýrt fram að það er í mínum huga algjört lykilatriði að verkið sé unnið í þverpólitískri sátt og samstöðu. Ástæðan er sú að það blasir við að hver sú ríkisstjórn sem tekur hér við að afloknum kosningum mun þurfa að fást við verkefnið. Ég hef engan áhuga á því að skilja þannig við í fjármálaráðuneytinu að málið hafi ekki verið eins vel undirbúið og kostur er (Forseti hringir.) þegar að ákvarðanatöku kemur, hvað þá heldur að þeir sem taka síðan við eftir næstu kosningar komi algerlega kaldir að málinu. Þess vegna þurfum við að vinna verkefnið saman og vera öll jafn vel upplýst.