141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

nauðasamningar þrotabúa föllnu bankanna og útgreiðslur gjaldeyris.

[16:40]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Þótt nafnið á þessari sérstöku umræðu um nauðasamninga þrotabúa föllnu bankanna og útgreiðslur gjaldeyris hljóði á þennan máta er hér um að ræða umræðu um afnám fjármagnshafta, eins og fram hefur komið í máli þess sem biður um umræðuna, hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, og síðan í svörum fjármálaráðherra. Við ræðum þá áætlun sem stjórnvöld hafa varðandi afnám gjaldeyrishafta.

Ég fagna þeirri áherslu sem fram kemur í máli hæstv. ráðherra um mikilvægi þess að verkefnið sé unnið í sátt og samstöðu í þinginu, að það sé ekki bara á færi ráðherrans eða embættismannanna í Seðlabankanum að fást við það heldur þurfi að hafa víðtækt samráð um það.

Að mati okkar framsóknarmanna eru þrjár leiðir færar til afnáms fjármagnshafta. Í einföldu máli eru það í fyrsta lagi afskriftir skulda, í öðru lagi endurfjármögnun og í þriðja lagi aukin framleiðsla. Það er kjarninn.

Þegar maður setur verkefnið svona upp lítur það út fyrir að vera einfalt, en þetta er risastórt verkefni. Það er flókið verkefni og forgangsmál hvað það varðar að ná heilbrigði í efnahagsmálum og síðan að innleiða markaðsskráningu íslensku krónunnar.

Við þurfum þessa heildstæðu áætlun. Ég fagna því líka að við ætlum nú fyrst og fremst að horfa til þess hvaða verkfæri við þurfum að hafa og hvaða árangri við stefnum að í stað þess að hafa ákveðna tímasetningu í því sambandi.

Varðandi upphæðirnar sem hæstv. ráðherra fór í gegnum má eiginlega segja að vandinn sé einhvers staðar í kringum þúsund milljarða kr. (Forseti hringir.) Ég ætla að nefna frekari útfærslur hvað það varðar á eftir fyrst ég fæ tækifæri til að koma upp aftur.